Norðurljósahlaupið 2025 fer fram laugardaginn 8. febrúar í miðbæ Reykjavíkur líkt og segir í tilkynningu frá Íþróttabandalagi Reykjavíkur.
Hlaupið fer fram á hápunkti Vetrarhátíðar Reykjavíkurborgar og er hlaupið fram hjá helstu kennileitum sem eru upplýst í tilefni hátíðarinnar.
Sebastian Storgaard, kynningarstjóri Íþróttabandalags Reykjavíkur segir hlaupið vera svokallað 4-5 km skemmtiskokk og ætti því að vera aðgengilegt flestum sem vilja taka þátt. „Á leiðinni verða skemmtistöðvar með ljósum og tónlist, sem skapa einstaka upplifun fyrir alla aldurshópa.“
Að auki mun rapparinn Emmsjé Gauti sjá um að hita upp hlaupara fyrir hlaup, stóra sem smáa.
„Að taka þátt í Norðurljósahlaupinu er frábær leið til að hrista af sér skammdegið. Hreyfing hefur jákvæð áhrif á líkamlega og andlega heilsu, eykur orku og bætir skap. Með því að sameina hreyfingu, ljósadýrð og tónlist í þessu hlaupi fá þátttakendur einstaka upplifun sem lýsir upp myrkustu mánuði ársins og stuðlar að betri líðan.“
Skráning í hlaupið er opin til kl. 16:30 þann 8. febrúar 2025 á vefsíðunni nordurljosahlaup.is. Allir þátttakendur fá sérstakan skráningarpakka.
„Hvort sem þú ert vanur hlaupari eða byrjandi, þá er Norðurljósahlaupið frábært tækifæri til að njóta hreyfingar, samfélags og gleði í skammdeginu.“