Gunnar Smári Jónbjörnsson og Lilja Kjartansdóttir voru gestir Kristínar Sifjar Björgvinsdóttur í Dagmálum á dögunum. Í þættinum sögðu þau sögu sína af því þegar Gunnar Smári veiktist skyndilega alvarlega og varð minnislaus í mánuð í kjölfar veikindanna.
Unnusta Gunnars Smára, Lilja, hefur verið manni sínum sem klettur í gegnum veikindin og áfallið. Hún sagði frá atburðum þess örlagaríka kvölds þegar Gunnar veiktist af mikilli yfirvegun og lýsti því þegar læknarnir héldu að Gunnar Smári væri að fá hjartaáfall og sendu hann í hjartaþræðingu en áttuðu sig fljótt á því að um annað væri að ræða. Gunnar Smári var með bráða ósæðarflysjun.
„Læknarnir fundu eiginlega ekkert hjartað í þræðingunni,“ segir Gunnar Smári í meðfylgjandi myndskeiði.
Lilja tekur þá orðið og segir að þarna hafi komið að þeim tímapunkti þar sem læknarnir áttuðu sig á því sem raunverulega var í gangi og var að valda veikindum Gunnars.
Ósæðarflysjun er lífshættuleg svo þegar þarna er komið við sögu er Gunnar Smári í bráðri lífshættu. Ósæðarflysjun er ekki algengur sjúkdómur og því oft erfitt að greina hann enda um flókið ástand að ræða. Gunnar Smári lýsir ósæðarflysjun með eftirfarandi orðum:
„Þá er það sem sagt þannig að æðarnar í okkur eru þriggja laga og það er eins og þú ímyndar þér einangrað rör það er einhver hola og síðan er þar sem vatnið fer um, síðan er einangrun utan um og síðan plastkápa. Við erum með alveg eins í æðarkerfinu okkar, við erum með þessi þrjú lög. Þessi flysjun er þannig að það kemst blóð á milli laga,“ útskýrir hann.
Gunnar var með undirliggjandi hjartagalla sem hann hafði ekki vitneskju um. Hjartagallinn olli því að mikill þrýstingur myndaðist. Að sögn Lilju höfðu ósæðar hans teygst mikið og þar sem þær áttu að vera þrír cm höfðu þær verið búnar að teygjast upp í níu.
„Þetta var ástæðan fyrir þessu mæði og með svona á fólk ekki að geta gengið upp stiga,“ lýsir Lilja og augljóst að tilfelli Gunnars var mjög alvarlegt.
Þau segja hjartverkinn sem Gunnar fann í rúminu heima hjá sér áður en hann leið útaf hafa verið ákveðna lífsbjörg. Verkurinn kom í kjölfar þess að kransæðin rifnaði frá hjartanu og varð til þess að læknarnir héldu að um hjartaáfall væri að ræða og sáu því ástæðu til að senda hann undir læknishendur í Reykjavík. Ósæðarflysjunin sjálf æxlaðist og gerði ekki vart við sig fyrr en á Landspítalann var komið. Að mati Lilju er sú rök orsaka mikil blessun því að hennar sögn hafa sjúklingar með ósæðarflysjun einungis um það bil 14 mínútur til að lifa af. Dánartíðni sjúkdómsins segir hún vera mjög háa.
„Það er alla vega talað um ef maður „googlar“ þessi einkenni eða þessa veiki þá er um 14% lifun, 14% þeirra sem fá þetta lifa af. Það er langalgengast að þeir sofni bara og vakni ekki aftur,“ segir Gunnar Smári.
Gunnar barðist fyrir lífi sínu og ástand hans leit ekki vel út. Lilja minnist þess þegar skurðlæknirinn sem gerði aðgerðina á Gunnari tók í hönd hennar áður en hann fór inn og sagði henni að hann myndi gera allt það sem hann gæti til að bjarga lífi Gunnars.
„Hinn læknirinn lét vita að hann væri á leiðinni í mjög stóra aðgerð, endaði á að vera níu klukkutímar. Hann fór í hjartastopp og þetta var mjög krítískt,“ segir Lilja.
Smelltu á hlekkinn hér að neðan til að nálgast viðtalið við Gunnar Smára og Lilju í heild sinni.