Sigrún María Hákonardóttir er stofnandi og eigandi Kvennastyrks, líkamsræktar fyrir konur í Hafnarfirði. Hún er þriggja barna móðir og brennur fyrir andlegri og líkamlegri heilsu. Sigrún kýs MUNA vörur vegna gæða og verðs. Þær eru ómissandi í baksturinn og kósýkvöldin á hennar heimili. Hún skrifar um hugarfarsvöðvann í Heilsublaði Nettó:
Ef það er einhver vöðvi sem ætti að huga að á hverjum degi, þá er það „hugarfarsvöðvinn“. Hugurinn stjórnar upplifun þinni frá morgni til kvölds. Hefur þú velt fyrir þér í hvaða ástandi hugur þinn er? Ef þú gætir gefið honum einkunn byggða á hversu mikið hugsanir þínar vinna með þér, hver væri hún?
Við erum ekkert nema venjur en þær hefjast í hugsunum okkar. Ef þú t.d. hugsar endurtekið að þú sért drífandi, að þú gerir hlutina án þess að velta þér upp úr þeim, þá munt þú verða þannig á endanum. Og ef þú hugsar sífellt að þú ofhugsir og getir aldrei tekið ákvarðanir, þá helst þú á þeim stað að ofhugsa allt og pæla óþarflega mikið í hlutunum. Hugsanir okkar stýra okkur í öllu. Venjur stýra okkur í öllu. Það er auðveldara að tileinka sér góðar venjur með uppbyggilegu hugarfari.
Langar þig að tileinka þér orkumeira mataræði, læra betur inn á líkama þinn og/eða sofa betur? Langar þig að hafa ánægju af því sem þú ert að gera í lífinu, hreyfa þig á hverjum degi og/eða hitta fjölskyldu og vini oftar? Byrjaðu þá á hugarfarinu og hugsaðu um það sem vöðva. Þú þarft að þjálfa vöðvann og þú þarft síðan sífellt að halda honum við.
Í lífinu skiptast á skin og skúrir. Stundum er óviðráðanlegum aðstæðum kastað að okkur og ef við erum með sterkan „hugarvöðva“ komumst við betur og fyrr í gegnum áföll og aðstæður sem hafa áhrif á okkur. Með sterkum hugarvöðva ertu oftar með þér í liði, þú tekur þér eins og þú ert og vinnur að því að verða betri. Þú tekur erfiðu dögunum sem sjálfsögðum, því þeir eru hluti af lífinu, og nýtur þess þegar allt gengur vel. Þú heldur alltaf áfram sama á hverju gengur og leyfir þér að vera nákvæmlega eins og þú þarft að vera.
Ég hef unnið markvisst í mínu hugarfari síðan haustið 2017 og er hvergi nærri hætt þar sem ávinningurinn hefur verið gríðarlegur. Ég stekk á öll tækifæri, er með allskonar markmið í vinnslu og fæ svo mikla ánægju út úr lífinu. Ég tek á móti öllu sem er kastað að mér og vinn úr því. Ég nýt til fulls góðu daganna þegar ég lendi á bleiku skýi og syndi í gegnum þessa gráu daga og leyfi mér að dvelja á þeim stað eins lengi og ég þarf. Ég hvet þig til þess að vinna í hugarfarinu, taka lítið skref í dag sem er öðruvísi en í gær, t.d. að gera eitthvað einfalt eins og að hlusta á eitthvað uppbyggilegt. Þú getur þetta rétt eins og ég.
Hér er uppskrift að hrökkbrauði sem ég vil deila með þér og er þægilegt að grípa í. Á sama tíma vil ég ögra aðeins huganum með því að spyrja þig hvaða afstöðu þú hefur til baksturs? Hugsarðu: „O, ég þoli ekki að baka, það tekur svo langan tíma, ég kann ekkert á þetta, ég klúðra alltaf öllu.“ Eða eitthvað í þessum dúr: „Ég ætla að baka“ og punktur eða jafnvel eitthvað ánægjulegt í kringum það? Hugsanir þínar munu stjórna upplifun þinni á öllum aðstæðum.
Innihald
• 1 dl MUNA sólblómafræ • 1 dl MUNA sesamfræ • 1 dl MUNA hörfræ • 1 dl MUNA graskersfræ • 1 dl MUNA gróft haframjöl • 1 ½ dl MUNA spelthveiti (heilhveiti, rúghveiti eða hveiti getur líka gengið) • 1 msk. malað kúmen • 1-2 tsk. salt (ég set 1 tsk. í deigið og strái síðan salti yfir deigið þegar ég er búin að fletja það út) • 1 dl olía (ég nota oft til helminga: ½ dl af annaðhvort avókadóolíu eða venjulegri gulri og ½ dl af „extra virgin“ grænni) • 2 dl vatn
Aðferð
1. Hitaðu ofninn í 200°C undir/yfir. 2. Byrjaðu á því að blanda öllum þurrefnum vel saman í skál. Blandaðu næst olíu og vatni saman við. 3. Settu bökunarpappír á bökunarplötuna. 4. Ef þú vilt að hrökkbrauðið sé stökkt skaltu skipta því í tvennt og baka í sitthvoru lagi, annars baka í heilu lagi. 5. Settu deigið á bökunarplötuna. Settu annan bökunarpappír ofan á og flettu deigið út þar til það verður jafnt og í þeirri þykkt sem þú vilt. Best er að nota hendurnar til þess að fletja út. 6. Lyftu bökunarpappírnum rólega af og skerðu deigið í hæfilega stóra bita og stráðu smá salti yfir. Hægt er að nota pítsuhníf eða venjulegan hníf. 7. Bakaðu síðan í miðjum ofni í 12-20 mínútur (mismunandi eftir ofnum, í mínum ofni passa 14 mín. þegar ég skipti deiginu í tvennt en um 20 mín. þegar ég baka í heilu lagi). Ef þú vilt að hrökkbrauðið verði aðeins mjúkt, þá bakar þú það í styttri tíma – ef þú vilt að það verði stökkt, bakar þú það lengur eða þar til það er fallega gullinbrúnt á litinn. Stærðin á hrökkbrauðinu skiptir líka máli þannig að gott er að fylgjast vel með fyrsta skammtinum.