„Uppáhaldsstaðurinn okkar í Nettó er tvímælalaust grænmetisdeildin (þó heilsudeildin sé líka okkar griðastaður), sérstaklega á haustin þegar ný uppskera er allsráðandi. Við trúum á að borða alla liti regnbogans fyrir heilsu og húð og borða mat sem inniheldur það sem jógarnir kalla „prana“ eða lífsorku sem grænmeti og ávextir eru fullir af,“ segja Eva Dögg Rúnarsdóttir og Berglind Gísladóttir hjá RVK Ritual í Heilsublaði Nettó:
Ein besta leiðin til að halda húðinni fallegri og ónæmiskerfinu sterku er að borða grænt grænmeti, sérstaklega salat og kál. Það er troðfullt af steinefnum og C-vítamíni sem hjálpar líkamanum við að framleiða kollagen fyrir húð og hár. Einnig er flest appelsínugult grænmeti sem og ávextir með nóg af andoxunarefnum sem hjálpa líkamanum að losa sig við óþarfa og halda húðinni í jafnvægi. En töfrar plöntufæðis ná lengra en bara í salat og snarl, það er einnig tilvalið að nýta grænmeti og ávexti í heimagerðan dekurdag.
Það er óþarfi að láta húðrútínuna kosta of mikið eða flækja hana um of, þú getur einfaldlega opnað ísskápinn eða eldhússkápinn, fundið til nokkur hráefni og búið til nærandi dekur.
Klassískt er að nota kaffikorginn í skrúbba fyrir líkamann og við mælum með því. Koffínið hefur öfluga andoxunareiginleika og er alveg sérstaklega gott fyrir blóðflæði húðarinnar, virkar gegn appelsínuhúð, veitir ljóma og er talið vera gott gegn sólarskemmdum í húð. Eiginlega mælum við meira með því að þú notir kaffið þitt á líkamann en í líkamann, því of mikil kaffineysla getur þurrkað upp vökvabirgðir líkamans. Og svo ef þú drekkur ekki kaffi er tilvalið að nota afgangste á húðina, því grænt te og kamillute eru alveg frábærir tónerar fyrir andlitið.
Ávaxtasýrumeðferðir eru þekktar og vinsælar í snyrtivörubransanum, svo að hvað um að setja ávexti og grænmeti beint á andlitið? Í hvert skipti sem þú skerð niður tómat að taka endann og maka honum framan í þig áður en þú hendir honum í ruslið! Sítrusávextir eru einnig góðir fyrir feita húð, gera hana skínandi hreina og þétta hana, en ef maður setur sítrussafa í andlitið er gott að skola hann vel af innan 10 mínútna því að sítrus getur gert húðina viðkvæma fyrir sól. Svo er tilvalið að setja vatn í spreyflösku og bæta við smá afgangs sítrónusafa, gúrkusneiðum og jarðarberjum og geyma inni í ísskáp og nota sem frískandi andlitsvatn.
Heimagerð dekurstund
Til eru ótal fleiri einfaldar leiðir til að nýta hráefni heimilisins í skemmtilegt og náttúrulegt dekur, til dæmis þessar hér:
• Gúrka á augun veitir raka og er góð gegn þrútnum augum. Einnig er gott að setja gúrkusneiðar á allt andlitið til að minnka svitaholur.
• Tómatar hafa svipuð áhrif á augun en lýsa einnig húðina vegna mikils C-vítamínmagns. Svo ef þú ert með bauga veldu þá frekar tómata en gúrku. Tómatar eru góðir fyrir allt andlitið. Þeir virka sem hið besta A- og C-vítamínserum en þeir innihalda einnig mikið af kalíum sem hjálpar til við að endurnýja húðfrumur.
• Bananar eru frábærir fyrir allar húðgerðir og virka sem hinn besti „exfoliant“ og veita einnig raka í leiðinni. Stappaðu banana og settu beint á andlitið, nuddaðu örlítið og skolaðu af eftir 10 mínútur.
• Eplaedik í hárið til að viðhalda réttu PH-gildi hársins, mundu að skola það úr eftir svona 30 mínútur. Einnig er gott að nota 50/50 edik og vatn í staðinn fyrir hárnæringu (ediklyktin fer um leið og hárið þornar).
• Brún hrísgrjón (möluð í duft í blandaranum) hafa lengi verið notuð í Ayurveda, indversku lífvísindunum, sem skrúbbur á andlitið og hann virkar dásamlega vel.
• Hrásykur og hvítur sykur og/eða salt (Himalaya-salt er í miklu uppáhaldi hjá okkur) virka vel sem skrúbbur fyrir líkamann. Sykurinn er mildari fyrir húðina en saltið og hentar því betur viðkvæmari húð. Við mælum með að prófa saltskrúbb á fætur og hendur og sykurskrúbb á restina af líkamanum.
• Kjúklingabaunahveiti er besti andlitsskrúbburinn, mildur og nærandi fyrir allar húðgerðir. Blandaðu smá vatni við hveitið, nuddaðu andlitið vel og sjáðu hvaða áhrif það hefur á húðina. Við mælum með þessum þrisvar sinnum í viku.
• Haframjöl: Malað í duft í blandaranum, sett í sokk, léreft eða fjölnota tepoka og út í baðið. Það mýkir og nærir húðina og baðvatnið verður fallega hvítt.
• Hunang á varir og sem maski á húðina, sérstaklega gott fyrir bólur og mjög viðkvæma húð. Ef þú kemst í hrátt, lífrænt hunang þá er það best.
• Ólífuolía á líkama, andlit, neglur og hár. Þessi olía hefur verið notuð í fegrunarskyni öldum saman. Hún er stútfull af andoxunarefnum og raka og dregur úr öldrunareinkennum.
Þessar tvær uppskriftir eru í uppáhaldi hjá okkur þegar kemur að því að blanda eitthvað einfalt en áhrifaríkt fyrir húð og hár í eldhúsinu.
MOJITO-varaskrúbbur 3-5 msk. sykur 3 msk. kókosolía (virgin, unrefined) safi úr hálfri límónu 3 myntulauf
Blandaðu saman kókosolíu og sykri í lítilli skál. Kreistu límónusafann út í og rífðu svo myntulaufin ofan í blönduna (þú ræður stærðinni á laufunum). Bættu við sykri þangað til blandan er meira eins og skrúbbur en vökvi (hann ætti að festast aðeins við skeiðina). Þá er blandan tilbúin og tilvalið að skrúbba dauðar húðfrumur af vörunum. Hægt að geyma í loftþéttri krukku í ísskápnum í 2 vikur.
MÝKJANDI rakamaski ½ avókadó ½ vel þroskaður banani 1 msk. ólífuolía
Blandaðu vel saman og berðu blönduna beint framan í þig eða í hárið. Leyfðu maskanum að virka í 20 mínútur, slakaðu á og þrífðu hann svo af.