„Hormónakerfi bæði karla og kvenna er hægt að líkja við ósvífið dyraat sem herjaði á íbúa Vesturbæjar fyrr í haust, þar hrukku saklausir íbúar í kút við hávært dingl og spark í útidyrahurðir. Til að skilja þessa samlíkingu dyraats og hormóna er mikilvægt að kynna sér hormónakerfi mannslíkamans,“ segir Elísabet Reynisdóttir næringarfræðingur í grein í Heilusblaði Nettó:
Hvert og eitt hormón í líkamanum er eins og sendiboði sem sem færir þér pakka af ýmsum stærðum og gerðum, beint heim að dyrum. Sumir pakkarnir færa gleði, aðrir undrun, spennu, ótta, kvíða, hamingju, kynlöngun og jafnvel óhamingju, allt fer það eftir því hver sendi pakkann af stað og í hvaða tilgangi. Þegar við upplifum eitthvað gott flæðir vellíðunarhormón um líkamann og þegar við erum ástfangin kviknar á kynhormónunum, þá flæða um líkamann boð sem gera okkur tilkippileg. Hormón eru yfirleitt í toppgír í kringum 35 ára aldurinn en eftir það fer að halla undir fæti. Framleiðsla á kynhormónum hjá konum og körlum dregst saman með aldrinum og það hefur áhrif á allan líkamann og andlega heilsu.
Á breytingaskeiði bæði kvenna og karla gerist það sama og hjá íbúunum í Vesturbænum þar sem dyrabjöllunni var dinglað en enginn var fyrir utan þegar heimilisfólk fór til dyra. Það kviknar ekki á neinum hormónum því það vantar sendinguna og ekkert skilar sér. Af þeirri ástæðu þarf að virkja sendiboðann og hvetja hann til dáða, en hvernig gerum við það? Svarið er einfalt, við getum virkjað hann með góðri næringu og réttum lífstíl. Það er einnig hægt að hjálpa til með góðum bætiefnum og jurtum sem geta haft góð áhrif á þá kvilla sem hrjá okkur á þessu tímabili.
Hvað var gert til forna?
Konur sem velja að hafna hormónameðferð á breytingaskeiði hafa sumar prófað inntöku á sérstökum blöndum bætiefna. Þessar jurtablöndur hafa bætt svefngæði, dregið úr skapsveiflum og hitakófi, hafa haft jákvæð áhrif á heilaþokuna og minnisglöpin sem læðast gjarnan yfir okkur miðaldra konurnar, dæmi um jurtablöndur er Kvennablómi. Jurtir sem styrkja hormónakerfið á breytingaskeiði eru hafrar (avena sativa), burnisrót, ginkgo biloba, lindiblóm og lakkrísrót. Ég mæli sérstaklega með jurtinni Ashwagandha en hún er frábær til að jafna skapsveiflur. Einnig er gott að taka inn góðar fitusýrur eins og omega 3 sem er í feitum fiski eða bæta inn í mataræðið góðum olíum eins og fiskiolíu.
Tökum ábyrgð á eigin heilsu og lífi
Góð næring getur hjálpað mjög mikið þegar breytingaskeiðið skellur á en margar konur eru næringarlega séð ekki upp á sitt besta á þeim tímapunkti. Með því að hafa öll vítamín og bætiefni í toppi siglum við lygnari sjó í gegnum þetta mikilvæga lífskeið. Ég mæli sérstaklega með þaratöflum á þessu æviskeiði, skjaldkirtillinn reiðir sig á að fá nægilegt joð, ef of lítið er um það getur það valdið mörgum alvarlegum heilsufarsvandamálum. Skjaldkirtillinn sér um að halda jafnvægi á hormónum líkamans, ef hann vantar joð getur það valdið skapgerðabreytingum, þyngdaraukningu eða -tapi, þreytu, meltingarvandamálum og hormónaójafnvægi sem getur leitt einn kvillann að öðrum.
Gott ráð í byrjun breytingaskeiðsins er að taka inn 250 mg af kvöldvorrósarolíu á dag, hún hefur reynst þeim konum sem glíma við fyrirtíðaspennu sérstaklega vel. Mikilvægt er að borða fjölbreytta og holla fæðu og sleppa ekki máltíðum. Annað sem er mikilvægt er að tyggja matinn vel, njóta þess að borða og lifa og hugsa vel um okkur.
Sem næringarfræðingur mæli ég hiklaust með því að prófa allt sem hægt er til að hjálpa líkamanum að fara í gegnum breytingaskeiðið. Það getur vissulega verið krefjandi tímabil fyrir margar konur en líka tímabil skemmtilegrar sjálfsskoðunar og endurmats. Munum að öll skeið ævinnar hafa sinn sjarma og sín vandamál (halló, gelgjuskeið! Gæti verið skýring á dyraatinu) en vandamálin eru hér til að leysa þau. Ef við búum okkur vel undir þetta tímabil þá er mun minni hætta á að við reytum af okkur hárið í verstu skapsveiflunum eða upplifum alla sem fífl og asna í kringum okkur. Ég segi ekki að við svífum um á hamingjuskýi en það er aldrei að vita nema þetta virki, það tapar allavega enginn á því að taka lífsstílinn í gegn og prófa góð bætiefni sem mögulega hjálpa okkur yfir þetta skeið. Njótum þess.
Karlmenn! Við skulum hafa eitt á hreinu. Dyrahrekkir viðgangast ekki bara í Vesturbænum, ekki frekar en að breytingaskeiðið nái eingöngu til okkar kvennanna.