Hönnuðurinn Sigga Heimis verður með sýningu á glerlíffærum sínum í Netagerðinni Mýrargötu 14. Glerlíffæri hönnuðarins hafa hlotið mikið lof um heim allan en í febrúar síðastliðnum sýndi hún líffærin á Náttúrugripasafninu í Stokkhólmi og vakti sýningin mikla athygli. Hún hóf að vinna við glerlíffærin árið 2007 þegar henni bauðst að halda sýningu á einu frægasta glerlistasafni heims, Corning Museum of Glass í New York.
„Ég tengdi líffærin og gler saman þar sem bæði eru ótrúlega sterk oft og
tíðum en ótrúlega veik einnig ef illa er farið með. Í uppgreftri mínum lagðist ég einnig yfir upplýsingar á ástandi líffæragjafar í heiminum og þá kom margt skelfilegt í ljós. Fólk selur úr sér líffærin í þriðja heiminum gegn greiðslum og einnig er þeim rænt þegar hentar. Líffæragjafalistar víðs vegar eru allt of stuttir og fátæklegir
og að til að gerast líffæragjafi þá þarf einungis að fylla út eitt eyðublað,“ segir Sigga Heimis.
„Fjórir af hverjum fimm sem bíða eftir líffæri er fólk sem bíður eftir
nýra. Eina líffærið sem hægt er að gefa á meðan maður er lifandi er nýra
og lífslíkur þessa sem bíður eftir nýra eru ekki sérstaklega góðar.“
Sigga Heimis býr glerlíffærin til úr blásnu gleri og hefur hún náð svo góðum tökum á listinni að blása gler að hún hefur tekið þátt í námskeiðum á vegum hönnunarfyrirtækisins Vitra. Hún hefur ekki fjöldaframleitt líffærin heldur hefur hún gert þau til þess að opna augu fólks.
„Ég hef aldrei fengið greitt fyrir mína vinnu og glerlistasafnið Corning hefur gefið mér þá hluti sem við höfum gert saman. En fyrirspurnirnar eru margar og það skemmtilega er að margar þeirra koma frá greinum sem almennt hafa ekki áhuga á hönnun, þ.e. tækni og læknisfræðigreinunum.
Og nú er svo komið að ég hef tekið þá ákvörðun að gefa nokkur líffæri til
góðgerðasamtaka.“
Eftir sýninguna verða líffærin boðin upp til styrktar Hjartavernd, Krabbameinsfélagsins og Umsjónarfélags einhverfra. Í vikunni kemur í ljós hver mun stýra uppboðinu en það verður í höndum landsþekktrar manneskju.
IKEA á Íslandi er styrktaraðili sýningarinnar.