Ari Eldjárn stendur þessa dagana í ströngu ásamt félögum sínum í uppistandshópnum Mið-Íslandi, þeim Dóra DNA, Bergi Ebba og Jóhanni Alfreð, við undirbúning á nýjum gamanþáttum sem fara í loftið á Stöð 2 um miðjan marsmánuð. Ari leit upp frá erli dagsins, bara rétt nógu lengi til að deila Óskalistanum sínum með lesendum.
Óskaiðjan? „Að vera grínisti, handritshöfundur og leikstjóri.“
Óskamaturinn? „Humar. Helst í Vestmannaeyjum eða á Stokkseyri.“
Draumabíllinn? „Fjórhjóladrifinn hýbridd BMW sem eyðir 3,9 lítrum á hundraðið, er undanþeginn bifreiðargjöldum og kostar minna en milljón, nýr úr kassanum.“
Draumaverkefnið? „Að leikstýra bíómynd sem stendur undir sér.“
Hvað langar þig sjálfan helst í? „Að eiga verksmiðju sem framleiðir vínylplötur og stendur undir sér.“
Hvað vantar á heimilið? „Djúsvél óskast. Þarf ekki að standa undir sér.“
Hvað er best heima? „Linda Guðrún Karlsdóttir.“