Textílhönnuðurinn Bryndís Bolladóttir og grafíski hönnuðurinn Anna Margrét Sigurðardóttir hugsuðu um jafnrétti og vinskap þegar þær hönnuðu veggfóður og prentlistaverk þar sem svanurinn nýtur sín í allri sinni dýrð. Samstarfið kalla þær Verum vinir. Svanurinn er í forgrunni í þessu verkefni og heillaði flesta upp úr skónum á HönnunarMarsi.
Svanur, unninn úr svampi og gæru, var hannaður af Bryndísi og sýndi hún hann fyrst í byrjun árs 2011. Svanurinn fékk framhaldslíf þegar Bryndís og Anna Margrét fóru að vinna saman. Úr varð dásamlegt veggfóður þar sem svanurinn sýnir sínar bestu hliðar. Í fjarlægð mynda svanirnir grafískt munstur en þegar nær er komið sést vel hvaða fuglategund er þarna á ferð.
Auk veggfóðursins hönnuðu þær áprentaða svani sem fallegt er að skreyta veggi með.