Lystigarðurinn er lokkandi

Lystigarðurinn á Akureyri.
Lystigarðurinn á Akureyri. mbl.is/Sara Skaptadóttir

Við erum ekki með teljara, þannig að ekki er vitað nákvæmlega hversu margir koma í garðinn á ári, en við höfum verið að giska á 90 til 100 þúsund gesti á ári,“ segir Björgvin Steindórsson, forstöðumaður Lystigarðsins á Akureyri.

„Hingað kemur mikill fjöldi erlendra ferðamanna, enda miklu lengri hefð fyrir slíkum görðum í útlöndum. Áhugi landans á garðrækt hefur aukist mikið á undanförnum árum. Hingað kemur fólk til að kynna sér ýmsar tegundir plantna og við reynum að gefa svör við fjölþættum spurningum, enda er okkar hlutverk meðal annars að veita almenna fræðslu.“

Danskt frumkvæði

Lystigarður Akureyrar er aldar gamall á þessu ári og eins og vera ber verður haldið upp á tímamótin með ýmsum hætti. Garðurinn var stofnaður 1912 að frumkvæði danskrar konu, Önnu Katharine Schiöth, honum var síðan stjórnað af tengdadóttur hennar, Margrethe Schiöth, í um þrjá áratugi af miklum dugnaði. Lystigarður Akureyrar telst vera fyrsti almennings- eða skemmtigarðurinn hér á landi, enda má segja að Akureyri hafi verið í fararbroddi hvað varðar ræktun og gróður.

Lystigarðsfélagið var stofnað 1909 og framkvæmdirnar 1910. Í fyrstu stjórn voru fimm konur. Talið er að Anna Katharine hafi upphaflega teiknað garðinn, sú teikning hefur því miður enn ekki fundist. Tengdadóttir hennar sat óslitið í stjórn Lystigarðsins til 1953, það ár var félagið leyst upp og bærinn tók við rekstrinum og hefur séð um hann til dagsins í dag.

Þrjár og hálf engjaslátta

Garðurinn góði hefur verið stækkaður þrívegis. Í upphafi var stærð hans talin vera þrjár og hálf engjaslátta. Heimildum ber ekki alveg saman um hversu stórt svæði ein engjaslátta er, en líklega hefur garðurinn verið um tveir hektarar að stærð en í dag er svæðið rúmlega þrír hektarar. Árið 1945 var garðurinn stækkaður til vesturs og til suðurs var hann stækkaður 1955.

„Við fengum svo smáviðbót 1994. Nákvæm stærð liggur ekki fyrir, en úr því verður bætt á árinu. Af og til hefur verið rætt um stækkun garðsins og ýmsar hugmyndir verið nefndar, þótt ekkert hafi verið ákveðið í þeim efnum. Besti kosturinn er að mínu viti að Lystigarðurinn fái fótboltavöll Menntaskólans á Akureyri, það svæði hentar afskaplega vel, en þá þarf auðvitað að leysa vandamál sem skapast í kjölfarið hjá nemendum skólans.

Flóra Íslands

Lystigarðurinn hefur alltaf verið opinn almenningi og við reynum að sinna gestum eins vel og kostur er, til dæmis kostar ekkert að koma hingað. Okkar verkefni er meðal annars að finna harðgerðar og fallegar plöntur sem henta vel hér á landi, bæði garð- og nytjaplöntur. Tegundirnar sem við erum með í garðinum eru um 7.500 talsins,“ segir Björgvin og heldur áfram:

„Flóra Íslands er hérna, tegundirnar eru á bilinu 420 til 430, reyndar er ekki hægt að rækta allar tegundir en við gerum okkar besta. Allar plönturnar eru merktar sérstaklega þannig að gestir geti áttað sig á heiti þeirra.“

Kaffihús í sumar

Miðað er við að Lystigarðurinn sé kominn í gott horf fyrir þjóðhátíðardaginn, 17. júní, og svo verður líka í ár. Í júlí verður eitthvað um að vera allar helgar, en 31. júlí verður mikið um að vera en þá er afmælisdagur Margrethe Schiöth og verður sá dagur frá og með þessu ári opinber afmælisdagur garðsins.

„Kaffihús verður opnað í garðinum í sumar, sem verður opið allt árið. Vonandi koma Akureyringar í stórum stíl í kaffi og aðsókn mun aukast í garðinn bæði vetur og sumar. Garðurinn getur verið gríðarlega fallegur á veturna þegar allt er hvítt. Auðvitað stefnum við að því að Lystigarðurinn verði í sparifötunum á afmælisárinu. Skrautjurtum verður fjölgað nokkuð í tilefni þessara tímamóta, enda tilefnið ærið,“ segir Björgvin Steindórsson, forstöðumaður Lystigarðsins á Akureyri að lokum.

Björgvin Steindórsson, forstöðumaður Lystigarðsins á Akureyri.
Björgvin Steindórsson, forstöðumaður Lystigarðsins á Akureyri. mbl.is
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda