Frönsku kaffihúsastólarnir Model A frá Tolix hafa verið áberandi í tískublöðum og á hönnunarbloggum síðustu ár. Það er til dæmis varla hægt að fara inn á sænskt hönnunarblogg án þess að rekast á þessa sætu stóla sem koma í meira en 50 litum.
Vinsældir stólanna hafa verið óslitnar frá árinu 1934 en þá var fyrsti stóllinn framleiddur. Í dag er stóllinn til sýnis á öllum helstu söfnum heims sem og Vitra Design Museum í Þýskalandi, MOMA safninu í New York og Pompidou Center í París.
Hönnuður stólsins var hugsjóna- og uppfinningamaðurinn Xavier Pauchard. Hann var frumkvöðull á sviði galvaniseringar í Frakklandi. Árið 1927 skrásetti hann Vörumerkið TOLIX og hóf framleiðslu á stólum, kollum og húsgögnum framleiddum úr járni. Þar sem stólarnir voru í senn, léttir, þægilegir og auðveldir í þrifum rötuðu þeir fljótt inn á stofnanir svo sem sjúkrahús og verksmiðjur. Auk þess nutu þeir vinsælda á kaffihúsum og veitingastöðum um allan heim. Penninn er farinn að selja stólana sem hlýtur að vekja kátínu hjá hönnunarmeðvituðum skvísum og stælgæjum.