Vinsældir flotaðra gólfa hafa aukist jafnt og þétt og í dag er svo komið að varla er hægt að opna fagtímarit arkitekta eða hönnunarblogg án þess að gólfin séu flotuð með mattri áferð.
Hilmar Hansson dúklagningarmeistari hefur flotað gólf í tæplega tvo áratugi og segir að efnið hafi sjaldan verið vinsælla en akkúrat núna. „Efnin hafa þróast mikið síðan ég byrjaði að flota gólf. Þegar ég byrjaði notaði maður lökk sem áttu það til að flagna. Síðan þá hafa efnin orðið betri og betri og í dag er áferðin orðin svo fín að það er nánast eins og að horfa ofan í steypuna.“
Þegar Hilmar er spurður að því hvers vegna flotuðu gólfin séu svona vinsæl segir hann að það sé svo mikill karakter í hverju gólfi. „Það er ekkert gólf eins og áferðin er eins misjöfn og gólfin eru mörg. Þetta efni býður upp á mikla möguleika. Það er alveg sama hvort um er að ræða einbýlishús, minni íbúðir, veitingastaði eða verslanir. Þetta passar við allt því efnið er svo náttúrulegt.“
Hvað þarf fólk að hafa í huga áður en það flotar gólf? „Það þarf að hafa það í huga að það fær það sem það fær. Hvert gólf hefur sinn karakter. Yfirleitt er óróleiki í gólfunum og það er ekki hægt að panta ákveðið „lúkk“. Þessi litur sem ég hef verið að nota mest er aðeins með tan-tón sem gerir litinn heitari,“ segir Hilmar.
Hér áður fyrr tíðkaðist að fólk setti lit út í flotið eða lit í lakkið sem gólfið var lakkað með. Hilmar mælir alls ekki með því. Hann segir að í dag séu mött flotuð gólf það sem fólk vill. Aðspurður hvort fólk noti gólflista við flotuðu gólfin segir hann að það sé ekki algengt. „Það er langfallegast að skera málninguna alveg við kverkarnar.“
Spurður um tískustrauma í floti segir Hilmar að áferðin sé mikið breytt síðan hann byrjaði að flota gólf. „Öll gólfin sem ég geri eru alveg mött og það er engin speglun í þeim. Það er það sem ég hef verið að þróa í mínum gólfum. Það kemur miklu meiri dýpt í gólfið ef það er mattlakkað. Ég er persónulega alveg á móti háglans,“ segir Hilmar sem vinnur mikið með arkitektum. Hann flotaði til dæmis gólfið á Marina hótelinu, í Evu á Laugavegi og á O sushi í Pósthússtræti. Hann segir jafnframt að flotið sé mun ódýrara en flest önnur gólfefni. „Í dag er þetta mun ódýrara en önnur gólfefni og komið á þann stað að flokkast sem gólfefni, ekki bráðabirgðalausn.“