„Prince er á leiðinni til New York og Freddy Krueger til Kaliforníu,“ segir Erla Ósk Arnardóttir Lilliendahl um pony-hestana sína sem hún umbreytir og gerir þá nær óþekkjanlega.
Erla Ósk málar og lakkar hestana og ekki aðeins pony-hesta heldur einnig sakleysislegar postulínsstyttur, hálsfestar og fleira. Listaverkin hennar eru til sölu og raunar er það svo að nokkrir pony-hestar hafa ferðast til nýrra eigenda víða heim. „Ég hef fengið fyrirspurnir um alls konar sérpantanir. Flestir sem hafa séð hestana hafa haft gaman af þeim og þeir vekja iðulega athygli. Eitt af uppáhöldunum mínum hlýtur að vera hestur sem var pantaður og átti að líkjast Prince þegar hann gaf út Purple Rain-plötuna. Mjög skemmtilegt verkefni. Í Bandaríkjunum eru reyndar margir sem safna breyttum pony-hestum og þaðan koma margar fyrirspurnir.“
Erla Ósk kíkir á nytjamarkaði og á einum slíkum sá hún styttu sem hreinlega kallaði á hana. „Persónulega er ég alls ekki styttukona, en ef ímyndunaraflið fær að ráða ferðinni geta þær orðið mjög skemmtilegar. Fyrsta styttan sem ég málaði var lítill strákur að gefa önd brauð. Semsagt óskaplega hefðbundin stytta. Sakleysið fékk fljótt að víkja og áður en ég vissi var litli strákurinn kominn með tattú og svart hár. Og öndin orðin frekar vafasöm.“
Í framhaldinu fór Erla að hafa augun opin fyrir fleiri hlutum sem hún gæti breytt. Ég var reyndar frekar viss um að fáir hefðu áhuga á þessum hlutum, enda gerði ég þá fyrst bara fyrir sjálfa mig. Það breyttist svo þegar ég opnaði Facebook-síðu þar sem ég var með hlutina mína undir nafninu Darkness becomes her. Ég var líka með bás á íslensku tattúráðstefnunni sem haldin var fyrri hluta september og fékk mjög góðar viðtökur sem hvöttu mig áfram.“
Segja má að Erla Ósk sé hvergi nærri hætt í óvenjulegri listsköpun því nú er hún að handmála háhælaða skó. „Það eina sem getur verið svolítið erfitt við þetta allt saman er að finna nægilega marga pony-hesta. Ég er fastagestur í Góða hirðinum og er nokkuð viss um að afgreiðslufólkið er orðið sannfært um að ég sé með einhverja furðulega pony-fíkn. Vinir og ættingjar eru með allar klær úti, en ég er alltaf þakklát ef einhver er tilbúinn að láta lúna hesta af hendi, frekar en að þeir endi í ruslinu.“
Facebook-síðuna má finna HÉR.