100 ár eru liðin frá fæðingu danska hönnuðarins Finn Juhl sem talinn er hafa sett hvað mestan svip á nútímahönnun húsgagna á síðustu öld. Af því tilefni verður yfirlitssýning á húsgögnum hans opnuð í Epal í dag. Sýningin hefst klukkan 17 það er sendiherra Dana á Íslandi, Søren Haslund, sem opnar sýninguna.
Finn Juhl var menntaður í húsagerðarist en einbeitti sér þó fyrst og fremst að húsgögnum. Juhl, ásamt Arne Jacobsen, Poul Kjærholm og fleirum eru sagðir hafa mótað þá stefnu sem nefnist Danish Modern.
Juhl þótti sveigja frá þeim fúnkísstíl sem hafði verið viðloðandi hönnunarheiminn árin áður en hann byrjaði af fullum krafti í sinni hönnun en hann er einn þeirra hönnuða sem náðu heimsathygli meðan hann lifði - bæði vestanhafs og í Evrópu.
Finn Juhl fæddist árið 1912 í Kaupmannahöfn. Hann ólst upp með bróður sínum hjá ströngum föður þeirra.
Hann hafði brennandi áhuga á listasögu og fór oft einn á listasafnið í Kaupmannahöfn þegar hann var ungur drengur til að skoða sig um og lesa sér til um listamenn. Faðir hans neitaði honum um að fá að læra listasögu í háskóla þar sem honum fannst það ekki nógu gagnlegt nám. Að lokum gat Finn talið hann á að leyfa sér að læra arkitektúr því það væri hagnýtt nám.
Hann útskrifaðist sem arkitekt, með áherslu á hönnun bygginga. Hann fékk þó fljótlega áhuga á húsgagnahönnun og fyrstu húsgögnin sem hann hannaði notaði hann sjálfur. Þess má geta að árlega eru veitt verðlaun úr svokölluð Finn Juhl-sjóði sem er ætlað að styrkja efnilega arkitekta og hönnuði. Louise Campbell er meðal þeirra sem hlotið hafa þennan styrk.