Bolefloor er fyrsta fyrirtækið í heiminum til að verksmiðjuframleiða sérsniðið gólfefni sem fylgir náttúrulegu línunum sem eru í trjám. Áður fyrr var þetta allt gert í höndunum sem gerði það að verkum að gólfefni varð mun dýrara. Með þessari tækni er hægt að nýta trén 20% betur en gert er þegar hefðbundið parket er framleitt, sem gerir gólfefnið umhverfisvænna.
Náttúrulega áferðin er sérlega falleg og glæsileg og eins og sést á myndunum þá hentar þetta parket við ólíkar aðstæður. Við fyrstu sýn virðist það kannski henta best í fjallakofa en svo er ekki. Það fer vel með tekk-tískunni og líka á nútímalegri heimili.
Hægt er að fá Bolefloor úr eik, aski, hnotu, kirsuberjavið og hlyn. Fyrirtækið notast við „auto-cad“ teikningar af rýminu þar sem á að leggja parketið og sérsniða þannig parketið þannig að hvert borð fyrir sig er merkt með númeri og í raun þarf ekkert að saga þetta gólfefni þegar það er lagt heldur er þetta eitt stórt púsluspil. Hægt er að skoða þetta gólfefni nánar í sýningarrými verslunarinnar Parket og Gólf.