Þriðja sería af Borgen, eða Höllinni eins og sjónvarpsþátturinn heitir á íslensku, hóf göngu sína fyrir tveimur vikum hjá Sjónvarpinu. Birgitte Nyborg er glæsilegri en nokkru sinni fyrr í þessari seríu. Hún er búin að jafna sig eftir skilnaðinn og komin með alþjóðlegan ástmann sem hún getur helst ekki hitt innan landamæra Danmerkur. Allavega ekki ef hún vill halda sambandinu leyndu.
Þriðja sería gerist tveimur og hálfu ári eftir að annarri seríu lauk og hefur margt breyst á þessum stutta tíma. Hún er til dæmis flutt úr fína fjölskylduhúsinu í mildu litunum og komin í glæsilega þakíbúð í nýju blokkunum við höfnina í Kaupmannahöfn.
Danskir sjónvarpsþættir hafa haft töluverð áhrif á smekk landsmanna og það er auðvelt að láta sig dreyma um klassíska og vandaða danska hönnun þegar hún birtist á sjónvarpsskjánum. Hinn norræni stíll er yfirleitt látlaus, vandaður, dálítið hvítur og lekker.
Í fjölskylduhúsi frú Nyborg voru mildir litir mest áberandi. Hver man ekki eftir gráa sófanum í stofunni, stóru mottunum og fallegu gluggatjöldunum? Í þriðju seríu er það „einhleypa“ sterka konan sem ræður ríkjum og er heimilið mun djarfara þótt hin danska eðalklassík sé á sínum stað. Undirritaðri finnst gulu gluggatjöldin í stofunni hryllilega smart. Síðustu ár hafa þunnar hvítar gardínur verið áberandi ásamt strimlagluggatjöldum og gegnsæjum rúllugardínum. Gulu „vængirnir“ eru dálítið hippalegir en samt svo dásamlega elegant á sama tíma. Þeir eru fáránlega flottir við rauða Polder-sófann.