Mæðgurnar Solla Eiríks og Hildur Ársælsdóttir halda úti blogginu Mæðgurnar.is þar sem þær deila uppskriftum að góðu lífi. Þótt Solla sé þekkt sem heilsudrottningin á Gló þá dettur þeim oft margt sniðugt í hug. Í sinni nýjustu færslu útbúa þær heimagerðar jólagjafir sem eru einfaldar og fljótlegar.
„Kannist þið kannski við metnaðarfull plön um að gefa heimagerðar jólagjafir, en svo líður tíminn svo hratt í desember og á endanum erum við farin að hlaupa um allan bæ á síðustu stundu að redda jólagjöfum? Þetta hefur nokkrum sinnum komið fyrir okkur mæðgurnar. Þess vegna datt okkur í hug að koma með nokkrar fljótlegar og umhverfisvænar hugmyndir fyrir þá sem langar að gefa heimagert, en eru ekki komnir lengra en að fitja upp fyrir vettlinga eða sokka þetta árið. Svo er internetið auðvitað stútfullt af sniðugum hugmyndum, um að gera að láta ímyndunaraflið fara á flug... gjafir þurfa ekki að vera flóknar eða taka langan tíma í framkvæmd til að viðtakandinn finni að ást, umhyggja og fallegar hugsanir hafi verið lagðar í verkið.
Við föndruðum ilmandi baðsalt, skrautlegt lúxus-súkkulaði og umhverfisvænan poka. Kíkið á afraksturinn.
„Heimagert“ lúxus-súkkulaði
Mjög fljótlegt er að útbúa skrautlegar og fallegar súkkulaðiplötur. Við notuðum dökkt, lífrænt og fair trade-súkkulaði til þess að bræða og svo bara allskonar lífrænt góðgæti sem við áttum inni í eldhússkáp. Þurrkaðir ávextir, hnetur, fræ, kakónibbur, blómafrjókorn, hrísflögur, kókosflögur.... bara það sem ykkur dettur í hug og finnst fallegt og gott. Nammi nammi namm! (Þessi með döðlum og pistasíum var hættulega góð!)
Magn súkkulaðis fer eftir hversu mikið þið ætlið að gera. Í þennan skammt notuðum við þrjár 100g plötur af uppáhalds lífræna fairtrade-súkkulaðinu okkar.
Notið 71% hreint súkkulaði, eða dökkt súkkulaði með möndlum, með appelsínubragði eða saltri karamellu eða ... ykkar uppáhald (líka gott að blanda saman týpum). Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði við vægan hita og hellið síðan í slétt ferkantað form eða disk, mjög sniðugt að hafa bökunarpappír í forminu, þá er auðvelt að ná súkkulaðinu af. Gott að hafa súkkulaðiplötuna frekar þunna en of þykka. Stráið þurrkuðum ávöxtum og hnetum/möndlum/fræjum/sjávarsalti/skrauti yfir. Setjið í kæli eða frysti til að láta storkna áður en þið brjótið niður og pakkið inn.
Baðsalt í endurnýttum krukkum
Við mæðgurnar erum krónískir krukkusafnarar, þetta er eitthvað sem hefur líklega gengið í erfðir frá ömmu H... allar krukkur eru þvegnar og endurnýttar og geymdar út í hið óendanlega! Sumar eru fallegri en aðrar og henta vel í gjafaumbúðir. Þessar krukkur eru undan kókosolíu (sú glæra) og grænmetiskrafti (sú skyggða). Okkur fannst þessi brúna svo sjarmerandi, svolítið gamaldags apótekaraleg og upplögð undir baðsalt eða heimagerðan líkamsskrúbb eða krem. Sú glæra er síðan skemmtileg ef það á að sjást í eitthvað fallegt eins og þurrkuð blóm eða kryddjurtir.
Heimagert ilmandi baðsalt
- gerir 10 dl og nóg í 2 meðalstórar krukkur -
6 dl íslenskt sjávarsalt
3 dl hreint magnesíum duft
1 dl matarsódi
5 dropar lavender-ilmkjarnaolía
5 dropar vanilluolía
(svona olíur fást í heilsubúðum)
1 rósmaríngrein eða 1 vanillustöng
Umhverfisvænn poki
Nú eru langflestir orðnir meðvitaðir um hversu mikilvægt er að draga úr plastnotkun. Margir reyna að venja sig á að nota fjölnota innkaupapoka í innkaupaferðum. Það gengur sko mun betur ef maður á flotta poka, sanniði til! Fyrir nokkrum árum, á vafri um internetið, rákumst við á ótrúlega sniðuga aðferð við að breyta gömlum stuttermabolum í taupoka, sem við urðum að sjálfsögðu að prufa. Til dæmis er mjög gaman að nýta gamlan uppáhaldsbol sem er orðinn of teygður og er hættur að fara manni vel, en maður tímir samt aldrei að henda. Þannig fær hann nýtt líf.
Gleðilega hátíð, kæru vinir!