Fótboltamaðurinn Kolbeinn Sigþórsson keypti hús af Hermanni Jónassyni og Guðrúnu Sigtryggsdóttur árið 2013. Settar voru 132 milljónir á húsið en það stendur við Haðaland 7 í Fossvogi. Kolbeinn er ekki með lögheimili í Haðalandi heldur er skráður til heimilis í Hollandi. Haðaland laðar að sér fótboltamenn en Eiður Smári Guðjohnsen og eiginkona hans, Ragnhildur Sveinsdóttir, eiga húsið númer 20 í götunni. Eiður Smári er með lögheimili á Spáni.
Kolbeinn festi kaup á sínu húsi 2013 en hann keypti húsið af Hermanni Jónassyni og Guðrúnu Sigtryggsdóttur. Hermann var í dag ráðinn forstjóri Íbúðalánasjóðs. Hann var áður forstjóri Tals.
Húsið við Haðaland 7 var endurhannað af Pálmari Kristmannssyni en Rut Káradóttir hannaði allar innréttingar í húsinu. Þegar húsið fór á sölu sumarið 2013 voru settar 132 milljónir á það. Þegar húsið var tekið í gegn voru gluggar síkkaðir og settir álgluggar í staðinn.
Eldhúsið í Haðalandi er opið og bjart en í því eru allar innréttingar sérsmíðaðar. Í eldhúsinu er stór eyja með graníti en eldhústækin koma frá SMEG. Rut Káradóttir lagði mikla áherslu á góða lýsingu í húsinu og er að finna mikið af fallegri innfelldri lýsingu sem hægt er að stýra eftir eigin smekk og geðþótta. Á gólfum er eikar- og plankaparket.
Umhverfis húsið er stór og fallegur garður með mikilli lýsingu og 200 fm timburpalli ásamt skjólveggjum. Allir skjólveggir og tréverk eru úr harðviði.
132 milljóna glæsivilla í Fossvogi
Eiður Smári og eiginkona hans, Ragnhildur Sveinsdóttir, keyptu húsið við Haðaland 20 árið 2005.