Ef það er eitthvað sem kveikir í þeirri sem hér skrifar þá eru það góðar hugmyndir, litir, form og hvernig pláss er nýtt á sem bestan hátt. Í þessari pínulitlu íbúð sem er staðsett í Taipei í Taiwan hefur kærustupar hreiðrað um sig.
Þar sem íbúðin er langt frá því að vera 500 fm að stærð þurfti að hugsa út í hvert smáatriði. Í íbúðinni er svefnloft og er það staðsett yfir baðherbergi og gangi. Eldhúsið er ekki stórt og er plássið undir stiganum nýtt sem eldhússkápar.
Parið fékk hönnunarstofuna KC Design Studio til að hanna íbúðina og koma með hugmyndir hvernig mætti nýta plássið sem best. Í stofunni er heill skápaveggur sem nýtist vel fyrir allskonar dótarí sem safnast upp á heimilum. Skáphurðirnar eru smart og setja svip sinn á íbúðina.
Í íbúðinni þarf líka pláss fyrir öll leikföngin en parið sem býr í íbúðinni eru bæði hönnuðir og safna leikföngum í frístundum. Þeim tekst einhvern veginn að koma dótinu fyrir án þess að fólk hafi á tilfinningunni að það sé að ganga inn í risastórt barnaherbergi.