William Oliver Luckett festi kaup á Kjarvals-húsinu en það vakti athygli þegar húsið var auglýst til sölu í lok árs. Luckett er bandarískur viðskiptamaður, listaverkasafnari og var framkvæmdastjóri theAudience sem hjálpar stjörnum í Hollywood að koma sér á framfæri í gegnum samfélagsmiðla. Hann hefur til dæmis unnið töluvert fyrir Björk okkar og á listaverk eftir marga að þekktustu listamönnum Íslands. Listaverkasafn Luckett ætti að fá að njóta sín á Sæbraut 1 en húsið var sérsmíðað undir Jóhannes Kjarval.
Kjarval fékk húsið að gjöf frá íslensku þjóðinni og var það byggt með það markmið að það færi sem best um listamanninn í húsinu. Þegar húsið var tilbúið hugnaðist honum hinsvegar ekki að flytja inn í það. Högni Óskarsson og eiginkona hans, Ingunn Ósk Benediktsdóttir, festu kaup á húsinu 1991 en seldu Luckett húsið 23. febrúar síðastliðinn.
Húsið er teiknað af Þorvaldi S. Þorvaldssyni arkitekt. Hann teiknaði húsið með sérþarfir Kjarval í huga. Stofa hússins var til dæmis ætluð sem vinnustofa listamannsins en hún er 110 fm að stærð með fimm metra lofthæð. Í stofunni eru risastórir gluggar með útsýni út á haf. Í þessu rými er algerlega einstök birta sem hægt er að stilla með viðarflekum.
Húsið er 443 fm að stærð og var byggt 1969. Í húsinu eru sex herbergi, arinn, stórar stofur og einstakt útsýni út á haf en húsið stendur á sjávarlóð.
Framan við húsið til suðurs er hlaðin bryggja úr grjóti, sem byggð var af útgerðarfélaginu Kveldúlfi í upphafi tuttugustu aldarinnar, en það félag var í eigu Thors Jensen og afkomenda hans. Hlaðinn grjótkantur afmarkar garðinn frá fjörunni og skapar skemmtilega umgjörð. Húsið fékk sérstaka umhverfisviðurkenningu frá Seltjarnarnesbæ árið 2014.