Hvítir veggir á undanhaldi

Árný Helga Reynisdóttir, eigandi verslunarinnar Sérefni, segir að það hafi verið afar auðvelt að afgreiða í málningarvöruverslun á árum áður enda hafi hvíti liturinn verið yfirgnæfandi vinsælastur. Fyrir nokkrum árum byrjuðu ljósgráir litir síðan að ryðja sér til rúms, en í dag eru Íslendingar orðnir fremur litaglaðir. 

Fyrir svona tveimur árum fór tískan að breytast þannig að það fóru að koma inn grásprengdir og púðraðir litir út í grábláan, grágrænan og grábleikan. Það sem selst mest núna eru þó hlýir, milligráir litir. Yngra fólkið er síðan að taka djúpgræna, eða skógargræna liti, djúpbláa og bleika. Þá er ég að tala um antíkbleika, ekki þessa barbíbleiku, og ekki bara í stelpuherbergi. Fólk er jafnvel að mála forstofuna grábleika, og stelpuherbergin kannski græn. Svartur er líka vinsæll á veggi,“ segir Árný Helga og bætir við að fólk sé orðið djarfara og þori frekar að mála heilu herbergin í dökkum litum, í stað þess að mála staka veggi.

„Þegar fólk fór að færa sig úr hvíta litunum yfir í gráa málaði það gjarnan einn vegg. Núna eru þó flestir að taka sama litinn á alla veggi, og jafnvel loftin líka. Líka þegar dökkir litir verða fyrir valinu. Það er mjög fallegt að ramma dökka liti inn, en til þess að lyfta rýminu kjósa margir að skilja eftir hvíta rönd efst uppi við loft, eða hreinlega nota lista. Bæði gólf- og loftlista. Listarnir eru einnig að verða þykkari og með meira flúri, hvort sem fólk er í nýjum eða eldri húsum, sem er skemmtileg breyting. Þá er fólk kannski að taka hvítar hurðir, hvíta glugga og hvíta lista við dökka veggi.“

Þegar Árný Helga er spurð hvort hún telji að grái liturinn muni halda velli á næstunni segir hún svo vera, enda sé hann bæði klassískur og hlutlaus.

„Þar fyrir utan er hann til í hundruðum afbrigða og er ofsalega fallegur bakgrunnslitur. Ég held að hann eigi eftir að halda áfram, en hann er þó að dekkjast. Ég sé að arkitektarnir eru farnir að taka dekkri tóna, og alveg út í koxgráa og dökka, grábláa liti. Mér sýnist litaflóran stefna í það að verða enn fjölbreyttari, dökkir litir eru áberandi, og jafnvel svartur. Fólk er til dæmis mikið að mála innréttingarnar sínar svartar,“ segir Árný og bætir við að gamlar mublur geti auðveldlega fengið nýtt líf með málningu.

Mött málning hefur verið áberandi upp á síðkastið, en Árný telur að ekkert lát muni verða á vinsældum hennar.

„Málningin er að verða mattari vegna þess að þá nærðu meiri dýpt í litinn. Þetta er mikilvægt þegar þú ert kominn í mjög dökka liti, því þá sleppur þú við endurkastið og færð fram allt aðra mýkt í litinn. Ég held að þetta sé ekki tískubylgja því framleiðendur gátu ekki framleitt þvotthelda matta málningu hér áður fyrr. Núna er þó komin fram málning sem má strjúka yfir án þess að áferðin breytist. Það er því ekki lengur þannig að það þurfi að kaupa málningu með hátt gljástig inn í eldhús,“ segir Árný Helga og bætir við að ef eitthvað sé á undanhaldi séu það hvítir veggir.

„Mér finnst eiginlega allt ganga, en verð þó að segja að hvítir veggir eru á útleið. Þetta er þó líka spurning um hvernig þú raðar hlutunum saman. Allir litir eru inni ef tónarnir í rýminu tala fallega saman. Hvort sem um ræðir húsgögn, gólf eða veggi,“ bætir Árný við, sem að sjálfsögðu á ráð undir rifi hverju þegar kemur að því að velja málningu.

„Gott er að horfa yfir hlutina sem maður á og ákveða hvort kaldur eða hlýr tónn hentar betur fyrir rýmið. Með því móti getur maður séð hvaða litir passa við litapallettuna heima við, því maður vill ekki þurfa að henda öllu út. Ódýrasta leiðin til að fríska upp á heimilið, og gjörbreyta því, er að mála. En þá þarf liturinn auðvitað að passa við munina sem fyrir eru. Þá geta gamlir hlutir fengið algerlega nýtt líf,“ segir Árný Helga að endingu.

Þessi blái litur er mjög vinsæll þessa dagana.
Þessi blái litur er mjög vinsæll þessa dagana.
Blátt á móti hvítum lökkkuðum hurðum kemur vel út.
Blátt á móti hvítum lökkkuðum hurðum kemur vel út.
Þessi laveneder-litur er heillandi.
Þessi laveneder-litur er heillandi.
Gráir tónar eru vinsælir.
Gráir tónar eru vinsælir.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda