Sesselja Thorberg innanhússhönnuður rekur fyrirtækið Fröken Fix. Til að byrja með sérhæfði hún sig í breytingum á heimilum fólks en nú hafa verkefnin þróast í þá átt að í dag gerir hún mikið af því að hanna vinnustaði. Hún segir að vinnuveitendur séu að kveikja á því að vinnuumhverfi skiptir miklu máli og það þýði lítið að hrúga hópi fólks í sem minnst rými og búast við bestu afköstum.
Er fólk að kveikja á því að vinnustaðurinn þarf að vera í lagi?
„Vinnustaðurinn hefur breyst gríðarlega síðasta áratuginn. Hann hefur lokað nánast á lokuðu skrifstofurnar og eru opnar skrifstofur nánast orðnar reglan frekar en undantekningin. Flestir hafa farið þessa leið, enda mun hagkvæmara fyrir fyrirtæki þar sem hægt er að koma fyrir mun fleiri starfsmönnum á minni fleti. Aftur á móti fóru að renna á eigendur tvær grímur þegar fólk fór í meira mæli að taka með sér vinnuna heim (sem er ekki hollt fyrir neinn til lengri tíma), vinnuframleiðni starfsmanna minnkaði og hljóðmengun truflaði starfsfólk og samskipti innan skrifstofunnar. Það er auðvitað ekki nóg að leigja bara sal og koma þar fyrir borðum og stólum og segja einn tveir og byrja! Mín skoðun er líka sú að forsvarsmenn fyrirtækja séu farnir að gera sér grein fyrir því að fjárfesting í góðri innanhússhönnun og skemmtilegu umhverfi skilar sér til baka í betra vinnuframlagi starfsfólks og það er ánægðara í vinnunni,“ segir hún.
Hverju viltu breyta inni á íslenskum vinnustöðum?
„Það eru nokkrir hlutir sem ég legg áherslu á þegar ég byrja á nýju verkefni fyrir vinnustað. Oft er fólk búið að vera á sama stað lengi og búið að gera svæðið sitt líkara heimili en vinnusvæði. Það má til að mynda auka vinnuframleiðni starfsmanna með því að hugsa þetta upp á nýtt.
Að gera hvert og eitt svæði skilvirkara án þess að hafa það kalt. Þetta er kúnst og stundum viðkvæmt en mikilvægur þáttur.
Lita- og efnisval ætti að haldast meira í hendur við hvernig skrifstofan sjálf er. Til dæmis ef það eru stórir norðurgluggar ætti ekki að velja kalda litapallettu og hvít borð svo einfalt dæmi sé tekið.
Lýsingu er á flestum stöðum ábótavant og svo er það blessaða hljóðvistin. Hún er alveg sér kafli og alltaf áskorun í sjálfri sér. En íslenskir vinnustaðir eru því miður oft dálítið einsleitir og það vantar oft alla stemningu í þá. Eitthvað sem ætti að vera meginatriðið, alveg eins og heima. Íslendingar þurfa að stíga meira út úr boxinu hvað þetta varðar.“
Hvaða kröfur þarftu yfirleitt að uppfylla?
„Ég byrja alltaf á þarfagreiningu fyrir hvern og einn stað því kröfurnar eru mjög misjafnar. Ég byrja á því og færi mig svo yfir í consept-vinnu þar sem ég kem jafnvel með nokkrar uppástungur að leiðum sem hægt er að fara. Þegar búið er að taka ákvörðun hefst teiknivinnan, sem auðvitað er mismikil. Því næst hefst pöntunarferlið og að lokum er sett fram tímalína fyrir verkefni, undirvertakar ráðnir til verksins og verkumsjón hjá mér hefst. En ég legg áherslu á að skrifstofan virki fyrir alla starfsmenn og að það sé gaman fyrir þá að koma í vinnuna, þægindi og hljóðvist sé í hávegum haft og skilvirkni eins og best verður á kosið.“
Eru opin rými ennþá málið?
„Já, það er eiginlega þannig, en opna vinnurýmið er líka í stöðugri þróun. Utan við þessa grunnþarfir sem þarf að uppfylla, þá eru sterkar kröfur um hvíldarherbergi þar sem starfsmenn geta farið út úr opna rýminu og unnið í næði til styttri tíma eða herbergi þar sem starfsmenn geta komið saman og átt stund sem ekki tengist vinnunni. Einnig hef ég verið að hanna mikið örfundarherbergi og svæði sem má fara í og eiga sín persónulegu símtöl fjarri opna svæðinu, sem og færanleg fundarherbergi. Allt eru þetta skref í áttina að því sem mikið er komið erlendis (og reyndar örfáir stórir vinnustaðir hér hafa tileinkað sér) og nefnist „activity based workspace“ – eitthvað sem ég er sjálf mjög spennt yfir. Grunnhugmyndin er að skapa besta umhverfið fyrir hvert verkefni í vinnslu fyrir sig. Einfalt séð byggist það á að enginn á sitt sér vinnusvæði eða borð heldur velur þú þér svæði eftir því hvaða verkefni þú ert að takast á við hverju sinni.
Fólk getur þá valið hvort það vill sitja við skrifborð, fundarborð með öðrum, í sófa, hljóðdempuðu svæði eða hvað sem er. Það er virkilega spennandi kostur og hægt að útfæra á marga vegu, en ég er sannfærð um það að þetta er framtíðin.“