Petra Breiðfjörð Tryggvadóttir og Ingi Valur Davíðsson búa ásamt strákunum sínum tveimur á Árskógssandi. Þau Petra og Ingi Valur keyptu sér nýlega hús sem þau hafa verið að gera upp en fyrir um fjórum árum keyptu þau raðhús sem þau tóku líka í gegn frá A til Ö.
Það eru hæg heimatökin hjá þeim Petru og Inga Val þegar kemur að framkvæmdum enda Ingi Valur menntaður smiður og Petra afar áhugasöm um allt sem viðkemur því að eiga fallegt heimili. Þau tóku eldhúsin í báðum húsunum í gegn. „Eldhúsin breyttu öllu fyrir húsin. Ég held að það séu flestir sammála mér þar að það er þúsund sinnum skemmtilegra að elda í fallegu eldhúsi,“ segir Petra en neðst í greinninni má sjá myndir af nýja eldhúsinu fyrir breytingar.
Þegar kom að því að taka eldhúsið í gegn í nýja húsinu bjuggu þau Petra og Ingi Valur að því að hafa verið nýbúin að taka eldhúsið í raðhúsinu í gegn. Þau vissu nákvæmlega hvernig þau vildu hafa nýja eldhúsið. „Eins og núna vildi ég alls ekki flísar og alls ekki efri skápa eins og við vorum með. En núna til dæmis ef við myndum taka þriðja eldhúsið í gegn myndi ég vilja hafa það alveg svart. Við hefðum gert það núna en lofthæðin er ekki nógu há fyrir það fannst okkur.“
„Bæði eldhúsin, áður en við tókum þau í gegn, voru bara hreinlega mjög grátleg. Við þurftum að taka fyrra eldhúsið í gegn því við ætluðum alltaf að setja íbúðina á sölu. Til þess að fá þokkalegt verð fyrir hana hefði aldrei þýtt að reyna að selja íbúðina ásamt eldhúsi sem leit út fyrir að vera í einhverri hryllingsmynd. Það var orðin rosaleg fúkkalykt inni í hinu eldhúsinu vegna þess að það lak í gegnum steypuna. Ég gat varla hugsað mér að vera að elda í svoleiðis lykt. Það var orðið vel myglað.“
Margir setja tíma og peninga fyrir sig þegar kemur að því að breyta eldhúsinu. Petra segir að eldhúsið í gamla húsinu þeirra hafi einungis kostað 400 þúsund með heimilistækjum fyrir utan ísskáp. Það eldhús er einfalt en smekklegt og aðeins minna en nýja sem kostaði aðeins meira. „Seinna eldhúsið kostaði eina og hálfa milljón með öllu sem þurfti að gera. Við vorum alltaf að horfa í kringum milljónina þannig að það má alltaf gera ráð fyrir því að svona framkvæmdir verði dýrari.“
„Það tók Inga ekki meira en fimm kvöld eftir vinnu í að koma upp innréttingunni í raðhúsinu. Við rifum gömlu niður á einu kvöldi. Það þurfti voða lítið að gera annað en að koma eldhúsinu upp. Í nýja húsinu tók það aðeins lengri tíma en ég bjóst við. Það voru þrjár vikur en þá var það alltaf eftir vinnu og um helgar. Þar þurfti að rífa allan gifsvegginn niður og gera nýjan, smíða grind og alls konar. Leggja fyrir nýtt rafmagn og vatn. Þetta er alveg smá vinna, tekur þolinmæði og vandavinnu. Mér fannst mesta vinnan mín megin, að þurfa að bíða eftir því að geta sett upp myndina mína af ananasnum og póstað því á Instagram,“ segir Petra í gríni.
Spurð að því hvaða ráð Petra sé með handa fólki í eldhúsframkvæmdum mælir Petra með því að búa annars staðar en í húsinu. „Ég mæli alls ekki með því að fara í eldhúsframkvæmdir með tvö börn, byrja á því milli jóla og nýárs og sérstaklega að búa á framkvæmdasvæðinu. Þetta tók verulega á. Það var mjög erfitt að njóta þess að sjá fallega eldhúsið okkar fara upp því þetta var bara keyrsla en við nærðum okkur ágætlega á 1944 réttum á meðan. Þannig að ef möguleiki er fyrir ykkur að búa annars staðar á meðan myndi það gera allan mun.“
Petra er dugleg að deila myndum á Instagram af fallega heimilinu þeirra Inga Vals en þau eru á fullu að að klára að gera húsið upp.
Before / after . Svört hurð er miklu meira sexy.
A post shared by P E T R A B R E I Ð F J Ö R Ð (@petra_breidfjord) on Mar 26, 2018 at 3:54am PDT