Einn frægasti listamaður heims, Ólafur Elíasson, ætlar að vinna með IKEA og búa til ljós sem knúið er áfram með sólarorku. Samstarfið var kynnt á árlegum hönnunardögum IKEA sem fram fóru í Almhult í Svíþjóð á dögunum.
Í samstarfi við fyrirtækið Little Sun, sem rekið er af Ólafi Elíassyni og Frederik Ottesen, ætlar IKEA að skoða sjálfbært líf án aðgangs að rafmagni. Meira en einn milljarður jarðarbúa býr á svæðum þar sem ekki er aðgangur að rafmagni. Margir hafa þar að auki lítinn eða engan aðgang að hreinu vatni og áreiðanlegum fjarskiptum. Fyrirtækin vonast til að vekja athygli á þessu og kanna möguleikana á öðrum lausnum og endurnýjanlegri orku til að gera líf fólks sjálfbærara. Aðgangur að rafmagni er stopulastur í dreifbýli Afríku og Indlands sunnan Sahara eyðimerkurinnar. Raforkudreifikerfi sumra borga eru þó það óstöðug að við vissar aðstæður er ekki hægt að treysta á rafmagnið.
Marcus Engman, yfirhönnuður IKEA, segir að fyrirtækið sé í stöðu til að veita miklum fjölda fólks aðgang að vörum sem gera daglegt líf þægilegra, sama hvort fólk býr við engan aðgang að rafmagni eða kýs að fara aðrar leiðir en að tengjast raforkudreifikerfum. Ef við getum hannað góðar lausnir þá verður það að fara „off the grid“ einfaldlega snjöll ákvörðun; sjálfbær, hagkvæm og gerir fólk óháðara öðrum.
Ólafur og Frederik vilja koma sjálfbærri, áreiðanlegri og hagkvæmri orku til þeirra sem hafa í dag ekki aðgang að rafmagni víða um heim. Með samstarfinu við IKEA vill Little Sun veita innblástur og kanna nýjar leiðir við að beisla sólarorku með snjallri og nýstárlegri hönnun.