Rut Káradóttir innanhússarkitekt hefur verið leiðandi í hönnun á íslenskum heimilum síðan hún kom heim úr námi frá Ítalíu fyrir meira en tveimur áratugum. Hún notar sitt eigið heimili sem tilraunastofu og segir að það sé miklu betra að selja fólki sem hún er að hanna fyrir hugmyndir þegar það getur séð hvernig hlutirnir líta út í raun og veru. Hún segir líka að það að fá innanhússarkitekt spari fólki mikla peninga.
Hvað skiptir mestu máli varðandi hönnun á heimilum?
„Þegar farið er í stærri verkefni innandyra er gríðarlega mikilvægt að fá inn fagfólk að verkinu. Sérþekking innanhússarkitekta snýr að því að hanna heildarskipulag og innréttingar um leið og hugað er að lýsingu, hljóðvist og efnisvali. Þeim peningum er vel varið, því ef vandað er til verka verður ekki aðeins upplifun heimilisfólksins betri heldur skilar það sé vel til baka í endursöluverði húsnæðis. Mistök í stórum framkvæmdum geta hins vegar verið mjög kostnaðarsöm og erfitt að leiðrétta þau. Þegar grunnurinn er góður er svo miklu auðveldara að breyta til og leika sér með rýmið eftir því sem tíminn líður. Ef það er til staðar er hægt að gera ótrúlega hluti með því einu að breyta um liti, efnisáferðir, húsgögn og fylgihluti/decoration,“ segir hún og bendir á að innanhússarkitektanám taki fjögur ár frá viðurkenndum háskólum.
Árðið 2002 festu Rut og eiginmaður hennar kaup á húsi í Breiðholti sem hún hannaði frá grunni. Í gegnum tíðina hefur oft verið fjallað um heimilið enda notar Rut það sem tilraunastofu. Hún segir að það gangi ekki að gera alltaf það sama og það þurfi að vera einhver þróun. Upp á síðkastið hefur hún staðið í ströngu við að endurhanna heimilið.
„Ég er alltaf að leitast við að gera eitthvað nýtt enda eyði ég miklum tíma í að þróa nýjar útfærslur og efnisáferðir í innréttingum, málningu og gólfefnum. Ég er svo heppin að fá að vinna með frábærum innréttingasmiðum og öðrum iðnaðarmönnum sem hjálpa mér að útfæra nýjar hugmyndir, en hér á landi höfum við innanhússarkitektar svo greiðan aðgang að frábærum iðnaðarmönnum og sérfræðingum hverjum á sínu sviði. Hér er allt við höndina,“ segir hún og bætir við:
„Ég hef einnig brennandi áhuga á litum og litasamsetningum því mér finnst svo mikið hægt að gera með því einu. Auðvitað þarf allt að spila saman, ekki bara litirnir á veggjum og loftum, heldur einnig gólfefnin, innréttingar, húsgögn og fylgihlutir. Ég veit ekki hversu margar litaprufur ég búin að gera með málningu frá Sérefnum síðustu mánuði. Þær skipta mörgum tugum! Oft þarf ég að berjast töluvert fyrir því að koma „nýjum“ málningarlitum að hjá mínum viðskiptavinum því þeir vilja oft fara „örugga“ leið og mála eins og þegar hefur verið gert. Þetta hefur gert það að verkum að ég hef málað heimili mitt og vinnustofu miklu oftar en ég hefði annars gert bara til að geta sýnt kúnnunum. Þegar ég byrjaði að prófa mig áfram með gráa tóna fyrir 10 árum, þótti það ansi djarft og það var ekki fyrr en ég var búin að mála sjálf þannig heima hjá mér að kúnnarnir mínir fóru að taka við sér,“ segir hún.
Rut er með vinnustofu heima og tekur á móti kúnnunum á heimili sínu. Þeir sem hafa komið heim til hennar nýlega hafa rekið augun alveg nýjar víddir þegar kemur að notkun á málningu.
„Síðustu tilraunir mínar hafa verið meira út í tóna eins og rústrauða, græna og jafnvel karrígulbrúna sem mér finnst koma mjög skemmtilega út. Þá lét ég í sumar mála loftin heima hjá mér í möttum svörtum lit. Það eru kannski ekki allir að kaupa þennan lit í fyrstu en hver veit hvað gerist á næstu misserum. Ég er að minnsta kosti ánægð með svörtu-loftin hjá mér. Þau skapa mikla dýpt og dramatík og öfugt við það sem ég átti von á þá finnst mér þau stækka rýmið frekar en hitt,“ segir hún.
Persónuleg heimili er fallegust
„Ég held að flestir innanhússarkitektar reyni að greina smekk og þarfir hvers viðskiptavinar, í stað þess að reyna að steypa alla í sama mót. Ef einhver elskar appelsínugult eða getur ekki unnið í opnu eldhúsi, þá tekur maður að sjálfsögðu tillit til þess og útfærir það á faglegan hátt. Þetta samstarf er mjög mikilvægt til þess að heimilin verði sem persónulegust og uppfyllir þær þarfir sem leitast er eftir. Um leið leið pössum við upp á að heimilið verði ekki eins og illa skreytt jólatré eða skál af smartís í öllum regnbogans litum,“ segir hún.