Hestakonan og listförðunarfræðingurinn Þóra Ólafsdóttir hefur sett hestabúgarð sinn við Elliðaárvatn á sölu. Um er að ræða ævintýraparadís í jaðri Reykjavíkur sem hefur að geyma 145 fm einbýlishús, 144 fm hesthús og 43 fm geymslu. Lóðin er samkvæmt Þjóðskrá 4.800 m2.
Heimili Þóru er sjarmerandi eins og sést á myndunum. Spænskur stíll ræður ríkjum á heimilinu en veggirnir í húsinu eru listaverk út af fyrir sig. Þeir eru sparslaðir af sjálfum Baltasar Samper listmálara og sandblásin innréttingin í eldhúsinu er eftir konu hans, Kristjönu Samper.
Íslenskt grjót er á gólfunum og á baðherberginu er frístandandi baðkar með ljónslöppum. Eins og sjá má er þetta ævintýrahús án hliðstæðu.