Ásta Bjartmarz eigandi Beautybar.is hefur sett sitt vel hannaða raðhús á sölu. Húsið var byggt 2018 og er 219 fm að stærð.
Stíllinn hennar Ástu er dökkur og drungalegur en eins og sést á heimilinu er hún mjög hrifin af svörtum lit. Í eldhúsinu er kolsvört sérsmíðuð innrétting með hnausþykkri svartri granítborðplötu á eyjunni og einnig í kringum vaskinn við endavegginn. Fyrir ofan eyjuna er svo kolsvartur háfur.
Úr eldhúsinu er hægt að labba út á svalir en eldhúsið er opið inn í stofu og borðstofu.
Baðherbergið er líka smekklegt en þar er svört innrétting með granítborðplötu en á gólfinu eru stuðlabergsflísar og veggir með steypuáferð. Svarta grindin í kringum sturtuna er sérsmíðuð og líka handklæðarekkarnir. Punkturinn yfir i-ið er svo frístandandi baðkarið.