Tara Brynjarsdóttir grunnskólakennari býr ásamt Agli Þormóðssyni og dóttur þeirra Aríu í fallegu og nýlega innréttuðu heimili í Laugardalnum í Reykjavík.
Tara og Egill fengu íbúðina afhenta í október 2018 og hófust þá strax handa við framkvæmdir en þau fluttu inn í mars 2019. Parið gjörbreytti íbúðinni og fékk hönnunarteymið HAF Studio til þess að teikna og endurskipuleggja íbúðina.
„Við færðum útidyrnar, eldhúsið og baðherbergið ásamt því að brjóta niður veggi til þess að opna íbúðina alla, við þetta varð hún mun bjartari og skemmtilegri. Ekki skemmir heldur að við fengum þetta æðislega fjölskylduvæna rými sem samanstendur af stofu, borðstofu og eldhúsi,“ útskýrir Tara og bætir við að þau hafi fengið mikla hjálp frá fjölskyldunni í framkvæmdunum sem hafi verið ómetanlegt.
Spurð að hverju sé mikilvægast að huga í skipulagi heimilisins segir Tara hjarta heimilisins skipta mestu máli.
„Fjölskyldan ver sem mestum tíma saman í sameiginlegu rými stofu, borðstofu og eldhúss. Annað svefnherbergið var stærra en eldhúsið og lá við stofuna, þar af leiðandi þótti okkur kjörið tækifæri að víxla þessum tveimur rýmum og brjóta vegginn á milli svo við gætum átt stærra sameiginlegt rými.“
Tara er alin upp á heimili þar sem hlutir þurfa að hafa fallegt form og notagildi og áhersla lögð frekar á að kaupa vandaða hluti og þá sjaldan og segir hún stílinn sinn hafa mótast af því hugarfari.
„Annars er ég opin fyrir flestu. Ég nota og kaupi það sem mér finnst fallegt hverju sinni en reyni að fylgja þeim áhrifum sem uppeldið hefur haft.“
Hvað varðar nýlegri muni verslar parið helst í HAF Store, Ikea, Dimm og Snúrunni.
„Einnig er ég dugleg að kíkja á nytjamarkaði, þar er stundum hægt að detta niður á góða vandaða hluti. Auðvitað spilar uppeldið inn í; kaupa frekar vandað og sjaldan.“ Spurð hver sé eftirlætishlutur hennar á heimilinu svarar Tara:
„Mér þykir óskaplega vænt um teppi sem mamma heklaði handa mér þegar ég var yngri, sem er rúmteppið hennar Aríu núna. Svo held ég fast í alla hluti sem ég hef erft og hafa tilfinningalegt gildi.“ Margir af fallegum munum heimilisins eru einmitt frá langömmum Töru og Egils. Tara er jafnframt dugleg að skoða Pinterest í leit að innblæstri.
„Þá horfum við Egill mikið á The Block Australia sem eru frábærir þættir til þess að fá hugmyndir. Mamma og tengdamamma eru líka duglegar að sýna mér fallega hluti og rými. Kolla tengdamamma er dugleg að ýta mér út fyrir þægindarammann og koma með góðar hugmyndir.“
Aðspurð hvaða rými sé í eftirlæti á heimilinu nefnir Tara eldhúsið. „Ég naut þess munaðar að fá að hanna draumaeldhúsið mitt, hluti þess var að við færðum til veggi. Við mæðgur erum duglegar í eldhúsinu og eigum margar gæðastundir þar.“
Fjölskyldan kann ákaflega vel við sig í Laugardalnum en Egill ólst þar upp. „Allt það helsta er í göngufæri; sundlaugin, verslun, fiskbúð, bakarí og heilsurækt, að auki góðir skólar og íþróttafélög. Þegar við fórum að skoða íbúðir heillaði þessi staðsetning okkur mest! Ekki skemmir fyrir að ég vinn svo í göngufæri frá heimilinu þannig að við þurfum ekki að nota bíl eins mikið og áður.“