Berglind Berndsen hannaði fallegt fjölskylduheimili

Svanirnir tveir eftir Arne Jakobsen koma úr Epal og líka …
Svanirnir tveir eftir Arne Jakobsen koma úr Epal og líka sófinn. Hillurnar eru sérsmíðaðar og hannaðar af Berglindi Berndsen. Ljósmynd/Gunnar Sverrisson

Margrét Ýr Ingimarsdóttir býr ásamt eiginmanni og tveimur börnum á fallegu heimili á höfuðborgarsvæðinu. Fjölskyldan var búin að búa í húsinu í nokkur ár þegar þau fengu Berglindi Berndsen innanhússarkitekt til að endurhanna heimilið. Eins og sést er útkoman fögur en áður en þau fóru í þessar framkvæmdir langaði hana helst að flytja annað. 

Þegar Margrét Ýr er spurð hvers vegna hún hafi fengið Berglindi Berndsen í þetta verkefni segist hún hafa valið fagaðila sem endurspeglaði smekk hennar og fjölskyldunnar.

„Þegar maður ákveður að demba sér í framkvæmdir sem þessar vill maður ekki velja hvern sem er. Maður vill fagaðila og einhvern sem í raun endurspeglar manns eigin stíl. Jafnvel, ef svo má að orði komast, kemur hugsunum manns á blað og framkvæmir þá. Ég var búin að vera að skoða ýmislegt á netinu og búin að vista ýmsar myndir af hönnun sem mér þótti falleg og var í takt við minn smekk. Það kom svo á daginn að það voru meira og minna allt myndir frá Berglindi. Þegar ég svo hitti Berglindi sjálfa vissi ég strax að hún myndi rúlla þessu upp. Hún áttaði sig strax á stílnum sem ég var að leita eftir og ætli við höfum ekki bara smollið svona saman. Hún er líka fagmaður fram í fingurgóma,“ segir Margrét Ýr.

Áður en fjölskyldan réðst í framkvæmdir var heimilið einfalt og töluvert magn af innréttingum sem sumar voru upprunalegar. Hún segir að þau hafi vitað þegar þau festu kaup á húsinu að sá dagur rynni upp að það þyrfti að endurnýja og betrumbæta.

– Hvað vilduð þið að Berglind myndi framkalla?

„Nútímalega hönnun sem átti samt vera hlýleg. Eitthvað sem myndi ramma vel inn þau húsgögn og listaverk sem við áttum og höfðum verið að safna okkur undanfarin ár. Við vildum heimili þar sem allir í fjölskyldunni ættu sinn griðastað en á sama tíma vildum við stækka samverusvæði fjölskyldunnar.“

Heillandi andstæður

– Hvers vegna varð þessi dökki litur fyrir valinu á innréttingum?

„Innréttingarnar og hurðirnar eru allar svartar í bland við ljósa veggi, hvít gluggatjöld og grálitað parket. Þessi litasamsetning gerir heimilið svolítið klassískt og við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því að eftir eitt eða tvö ár verðum við orðin leið á öllu saman. Hugmyndin var kannski helst sú að þetta muni geta fylgt okkur langt inn í framtíðina, þar sem við viljum helst fá að verða gömul og grá í þessu húsi.“

– Keyptuð þið einhver húsgögn í leiðinni eða er þetta allt innbú sem var til?

„Við höfum verið dugleg í gegnum tíðina að sanka að okkur fallegum húsgögnum og listaverkum. Við þurftum þó að gefa gamla sófann okkar upp á bátinn en hann hafði nýst okkur í 12 ár, tveimur börnum og tveimur hundum seinna, svo álagið var þó nokkurt. Að honum frátöldum áttum við flestallar mublurnar og þær ríma vel við húsið í dag,“ segir hún.

Þegar Margrét Ýr er spurð út í sinn uppáhaldsstað á heimilinu segir hún að eldhúskrókurinn sé mikið notaður.

„Ég á tvo staði sem eru í uppáhaldi og þvottahúsið er klárlega ekki annar þeirra. Krókurinn í eldhúsinu heldur einstaklega vel utan um mann og þar er ótrúlega gott að lesa. Svo er það stóll mágkonu minnar sem unir sér svo vel inni í stofu undir fallegu loftverki Berglindar. Ég er svo glöð að hafa eignast staði innan heimilisins þar sem er friður og ró.“

– Hverju breytti það fyrir þig að breyta heimilinu?

„Mér finnst heimilið okkar vera í takt við það sem okkur hefur alltaf dreymt um. Skipulagið er til fyrirmyndar og fyrst og fremst líður okkur ótrúlega vel. Við höfðum mikið velt því fyrir okkur að flytja, af því að við vorum ekki nógu ánægð með húsið. Á móti því mælti hins vegar að staðsetningin er einstök – róleg gata með eintómu toppfólki í hverju húsi – þannig að ég hafði þráast við. Eftir að við fórum í breytingarnar held ég að við séum ekkert lengur að líta í kringum okkur eða pæla í einhverju öðru.“

Vill hafa heimilið persónulegt

– Finnst þér skipta máli að eiga fallegt heimili?

„Mér finnst að heimili manns eigi að vera griðastaður þar sem manni líður vel. Mér finnst gaman að hafa fallegt í kringum mig en ég vil líka hafa það hlýlegt og persónulegt.“

– Voru framkvæmdirnar kostnaðarsamar?

„Maður leggur vitanlega af stað með áætlun en eins og gengur og gerist fara þessar áætlanir oft úr skorðum. Einn kunningi grínaðist með að það væri hægt að margfalda kostnaðaráætlun fyrir svona með pí eða 3,14. Það er ekki fjarri lagi,“ segir hún og hlær.

Sagði strax já

Berglind Berndsen innanhússarkitekt FHI segist hafa sagt strax já þegar Margrét Ýr og eiginmaður hennar leituðu til hennar.

Hvað vildir þú kalla fram á þessu heimili?

„Ég vildi fyrst og fremst skapa fallegt og notalegt heimili og huga vel að persónulegum stíl þeirra hjóna. Ég hafði samræmi í lita- og efnisvali svo fallegt flæði myndi skapast á milli rýma en um leið vildi ég hanna tímalaust og einfalt heimili sem myndi standast tímans tönn. Mjúk og náttúruleg palletta er ráðandi til að skapa notalega og hlýlega stemningu,“ segir Berglind.

– Hverjar voru óskir húsráðanda?

„Við fórum í miklar skipulagsbreytingar á húsinu. Ég opnaði anddyrið, færði til og stækkaði svefnherbergi barna, opnaði alla veggi inni á svefnherbergisgangi og bjó til sjónvarpsrými. Færði þvottahús sem staðsett var vinstra megin þegar gengið var inn í eldhús og færði það hægra megin við eldhús. Lokaði útigeymslu sem þar var til að búa til meira pláss. Opnuðum allt eldhúsið, stækkuðum glugga og fleira sem gerði ásýnd hússins fallegri.

Margrét og eiginmaður hennar komu að sjálfsögðu með sína þarfagreiningu og óskir varðandi herbergisskipan, herbergisfjölda og fleira en að öðru leyti var mér sýnt mjög mikið traust hvað varðar hugmyndavinnuna og hönnunina sjálfa.

Við fundum líka strax í upphafi að við smullum saman sem er einstakt í svona viðamiklu verkefni. Við vorum einfaldlega að tala saman allan tímann,“ segir hún.

Berglind lagði mikið upp úr því að góð hljóðvist og lýsing væri í húsinu.

„Loftið sem fyrir var var frekar erfitt með mörgum brotum hér og þar og mismunandi lofthæð var í húsinu. Eins var lýsingin léleg og því mjög mikilvægt að hanna loftið og lýsinguna alveg frá grunni. Loftin voru því byggð upp á nýtt, búnar til raufar fyrir gluggatjöld og fallegu loftabitarnir byggðir upp í loftið í stofunni til að búa til sérstaka stemningu, setja punktinn yfir i-ið og bæta þar að auki hljóðvistina. Einnig leituðumst við við að hafa mjög góða vinnulýsingu ásamt fallegri stemningslýsingu. Ég fékk Eirík í Lúmex til liðs við mig en hann er einstakur ljósahönnuður og áttum við frábært samstarf í öllu ferlinu. Lýsingin í húsinu er mjög eftirtektarverð og falleg,“ segir hún.

Allar innréttingar í húsinu eru hannaðar af Berglindi og sérsmíðaðar í Aðalvík en um er að ræða svarta sprautulakkaða eik á móti hvítum kvartsteini frá Granítsmiðjunni.

„Svo valdi ég fallegar flísar frá Birgissyni í eldhúsið sem eru með þessum marmaraeffekt sem gefur ofboðslega fallegt yfirbragð og valdi svo hlýlegt parket á móti, einnig frá Birgissyni.“

– Hvað finnst þér skipta máli þegar svona heimili eru tekin í gegn?

„Ég hef oft sagt að markmið mitt er alltaf að hanna draumaheimili viðskiptavina minna og skapa fallega umgjörð. Það sem mikilvægast er að hugsa um er samband á milli skipulags og innra fyrirkomulags í sjálfu rýminu. Það þarf að úthugsa rýmið svo besta nýting náist. Huga þarf vel að allri þarfagreiningu og hlusta vel á óskir viðskiptavinarins.“

Í stofunni eru fallegar bókahillur sem bjóða upp á mikla möguleika.

„Mér fannst svo tilvalið að teikna bókahillur á þennan vegg þar sem hann var frekar einmanalegur einn og sér. Einnig eru þessar einingar alveg frábær hirsla og geyma fallegar minningar.“

– Glerhurðin með stálkantinum, hvernig kom hún til?

„Ég teikna mikið stálhurðir í hönnun minni. Þær gefa mjög sterkt og fallegt yfirbragð á móti hlýlegu efnisvali. Ég stækkaði opið mikið inn á svefnherbergisgang til að fá stækkun á rýmið en okkur fannst samt sem áður mikilvægt að geta lokað að sér. Þess vegna varð stálhurðin fyrir valinu. Létt yfirbragð en hægt að loka.“

– Er fólk farið að vilja lokaðri rými?

„Það er alveg bæði og, það fer algjörlega eftir verkefnum hverju sinni. Margir vilja þó loka rýmum upp á hljóðvist og finnst mér því þessi pæling með stálhurðir algjör snilld. Sterkt yfirbragð en samt sem áður með þessum léttleika og gegnsæi.“

Hillurnar koma einstaklega vel út.
Hillurnar koma einstaklega vel út. Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Sjónvarpsherbergið er hlýlegt en Berlind hannaði millihurð úr gleri til …
Sjónvarpsherbergið er hlýlegt en Berlind hannaði millihurð úr gleri til að stúka af rými. Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Eldhúsið er með dökkbæsuðum innréttingum og eyju með góðu vinnuplássi.
Eldhúsið er með dökkbæsuðum innréttingum og eyju með góðu vinnuplássi. Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Borðkrókurinn í eldhúsinu er mjög mikið notaður.
Borðkrókurinn í eldhúsinu er mjög mikið notaður. Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Hér má sjá fallegt verk eftir Pétur Gaut á veggnum. …
Hér má sjá fallegt verk eftir Pétur Gaut á veggnum. Stólarnir eru frá Eames og fást í Pennanum. Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Í eldhúsinu er mjög gott skápapláss, tveir bakaraofnar og gott …
Í eldhúsinu er mjög gott skápapláss, tveir bakaraofnar og gott vinnupláss. Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Horft úr stofunni inn í sjónvarpsherbergi.
Horft úr stofunni inn í sjónvarpsherbergi. Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Hér má sjá hvað String-hillurnar koma vel út.
Hér má sjá hvað String-hillurnar koma vel út. Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Grái liturinn í herberginu skapar hlýlegt andrúmsloft í barnaherberginu.
Grái liturinn í herberginu skapar hlýlegt andrúmsloft í barnaherberginu. Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda