Ásdís Mercedes Spanó, myndlistarmaður, kennari og ráðgjafi á sviði myndlistar, raðar ólíkum listaverkum saman á vegg heima hjá sér. Hún breytir til reglulega og færir verk á milli staða. Hún segir samtal ólíkra verka geta skapað aðra og nýja tilfinningu í rýminu og því geta kaup á nýju listaverki skipt sköpun þegar breyta á til heima við.
Hún er nýbúin að færa sig um set á Seltjarnarnesinu í fallega íbúð sem hentar fjölskyldunni vel.
„Við fjölskyldan ákváðum fyrir nokkru að leita að íbúð sem kæmi til með að henta okkur betur. Við vildum íbúð sem hefði nokkra eiginlega sem við töldum mikilvæga; að hún væri vel staðsett, á mörkum Seltjarnarness og Vesturbæjar. Strákarnir mínir stunda íþróttir af kappi í KR; sá yngri sækir nám í Valhúsaskóla og sá eldri í Verzlunarskóla Íslands, því töldum við svæðið á milli Eiðistorgs og KR tilvalið.“
Ásdís er mikið fyrir listaverk, ekki síst málverk.
„Þrátt fyrir að hafa unnið í öðrum miðlum eru flest verk mín unnin út frá málverkinu. Litir, form og áferð er það sem ég hef verið að fást við undanfarin ár. Nýjustu verkin eru unnin út frá þríhyrningsforminu þar sem ég leitast við að skapa spennu á myndfletinum með röðun þríhyrningsforma og lína. Áferð verkanna dregur úr og eykur spennuna á myndfletinum ásamt því að skapa þrívíða tilfinningu í verkunum. Ég hef alltaf unnið mjög tilviljunarkennt að listsköpun minni og hafa efnisnotkun og tilraunir með ólík efni verið mér hugleikin og leitt mig áfram í því ferli.“
Hefurðu alltaf verið listræn?
„Já, ætli það ekki. Ég man eftir mér frá unga aldri að velta fyrir mér tengingu lita og fólksins í kringum mig. Hvernig ég upplifði samband mitt við fólk endurspeglaðist í þeim litum sem ég tengdi fólkið við, hér á ég við fjölskyldu og nána vini. Ég hugsa til þess enn í dag hvers vegna ég tengdi litinn brúnan eða Burnt Sienna við mömmu en bláan eða Ultramarine blue við pabba.
Litir hafa alltaf haft mikil áhrif á mig og hef ég í gegnum tíðina átt erfitt með að nota mikið af þeim í eigin listsköpun. Þeir eru svo áhrifamiklir og vel ég að nálgast liti með mikilli varkárni. Á tímabili voru gráir litir mikið rannsóknarefni hjá mér og málaði ég eingöngu með gráum tónum.
Ég tel annars mikilvægt að ná að næra listrænt eðli sitt, við höfum öll okkar listrænu hlið og getur listin nært okkur og glatt ef við gefum henni tækifæri til.“
Hvað um að gera hlutina sjálf? Hvernig kom það til?
„Ég held að handlagni tengist persónuleikanum að einhverju leyti. Þeir sem hafa mikla framkvæmdagleði og vilja að hlutirnir gangi hratt og vel fyrir sig eiga oft erfitt með að bíða eftir iðnaðarmönnum og vaða þá jafnvel í verkið sjálfir og úr verður eitthvað misgott. Ég held að myndlistarnámið hafi einnig haft mikið að segja hvað handlagni mína varðar en í slíku námi lærir maður margt sem getur nýst manni vel í lífinu.“
Hvað keyptir þú þér síðast inn á heimilið?
„Ég keypti mér bókahillu í Góða hirðinum. Ég var á leiðinni í Ikea að skoða úrvalið þar og sótti mömmu í leiðinni sem var stödd í Góða hirðinum. Þar rak ég augun í þessar fínu bókahillur sem virtust óhefðbundnar og hálfgert púsluspil að setja saman. Þegar við mamma höfðum fundið út úr því hvernig þær ættu að raðast leist mér svona líka vel á þær og sló til. Sparaði mér líka heilmikinn pening og er ánægðari fyrir vikið þar sem ég hef alltaf verið mjög hlynnt því að endurnýta og vera ekki alltaf að kaupa eitthvað nýtt.“
Þegar kemur að uppáhaldshúsgagninu segir Ásdís að hún eigi ekkert slíkt.
„Ég hef nú aldrei átt uppáhaldshúsgagn en mér var gefinn hægindastóll fyrir nokkru sem hefur vakið töluverða lukku á heimilinu. Hann er einfaldlega svo þægilegur, kannski ekki sérlega smart en ég lagði fallegt teppi yfir hann sem mér var gefið af kærri vinkonu. Teppið er úr Fischer og hefur að geyma remedíur fyrir bakið, myndir af baklækningarjurtum og fannst mér tilvalið að nýta teppið til þess að breiða yfir stólinn og hafa nærtækt þegar það er kósítími.“
Hvað getur þú sagt mér um listaverkasafnið þitt?
„Ég á nokkur falleg verk sem ég hef verið svo lánsöm að geta fjárfest í eða fengið gefins í gegnum árin. Eitt af mínum uppáhaldsverkum er verk eftir myndlistarmanninn Kristinn E. Hrafnsson og heitir Horn skuggar, 2016. Kristinn er einn af okkar þekktari samtímalistamönnum. Verk hans hafa áhugaverðan heimspekilegan þráð og fjallar hann m.a. um manninn og skilning hans á umhverfi sínu, nokkuð sem hefur verið mér hugleikið í eigin myndlist.
Eitt af litríkari verkum mínum er verk eftir myndlistarmanninn Davíð Örn Halldórsson og heitir Rósa mín, 2018. Verk Davíðs eru óhlutbundin þ.e.a.s. litir og form sem raðað er tilviljunarkennt á myndflötinn. Hann málar og spreyjar með mismunandi málningu á fundna hluti og nær að skapar lífræna og draumkennda veröld.
Verk Ásdísar Sifjar Gunnarsdóttur, Abstract existence, 2008, stendur fyrir ofan rúmið mitt en það er áhrifamikið verk, stilla úr vídeóverki af konu í gullklæðum sem breiðir út faðminn.“
Hverju mælir þú með sem tengist listaverkum heima?
„Ég mæli með því að gefa sér tíma, skoða og kynna sér samtímalist og ef tækifæri gefst til að fjárfesta í því sem vekur áhuga og fær mann til þess að hugsa. Einnig að hika ekki við að leita í galleríin til þess að fá góð ráð um kaup á listaverkum, en á Íslandi er nú að finna þrjú framsækin gallerí sem taka þátt í alþjóðlegum listamessum og eru að kynna listamenn sína og verk þeirra hér heima og erlendis.
Ég hef farið þá leið á undanförnum árum að vera ófeimin við að raða vel á veggina hjá mér og breyta reglulega til og færa verk á milli staða. Samtal ólíkra verka getur oft skapað allt aðra og nýja tilfinningu í rýminu og því geta kaup á nýju listaverki skipt sköpun þegar breyta á til heima við.“
Ásdís hefur starfað ötullega fyrir myndlistina í landinu.
„Ég tel mikla grósku vera í myndlistinni. Við eigum þónokkra listamenn sem vakið hafa verðskuldaða athygli á erlendri grundu á undanförnum árum og er t.d. grein þess efnis að finna í The Guardian sem kom út fyrr í vikunni. Einnig er töluvert af áhugaverðum ungum myndlistarmönnum að stíga fram á sjónarsviðið og tilvísanirnar í verkum þeirra oft hversdaglegar en á sama tíma hafa þær einnig að geyma háleitar spurningar um tilvist okkar og tilgang.
Stuðningur við myndlistarstarfsemi í landinu mætti hins vegar vera meiri. Það er eilíf barátta myndlistarmanna, stofnana og fyrirtækja sem fást við myndlist á Íslandi að ná að fjármagna starfsemi sína og fá almenning til meðvitundar um mikilvægi þess að næra og styðja við listir í landinu. Ég hvet því alla til þess að mæta á sýningar í söfnum og galleríum landsins og kynna sér samtímamyndlist, hún kemur sífellt á óvart, vekur spurningar, fær okkur til þess að hugsa og ef vel tekst til kennir okkur eitthvað nýtt.“