Draumur margra er að eignast sumarbústað þar sem viðkomandi getur slakað á, lesið bækur, notið náttúrunnar og gert fallegt í kringum sig. Ef þig dreymir um sumarbústað eða átt sumarbústað en vantar hugmyndir um hvernig megi breyta eða bæta er nýjasta afurð Höllu Báru Gestsdóttur innanhússhönnuðar og Gunnars Sverrissonar ljósmyndara eitthvað fyrir þig.
„Við ákváðum að taka sumarið og haustið í þessa vinnu og fórum um allt land til að safna húsum í bókina. Þau teygja sig í alla landshluta, eru af öllum stærðum og gerðum, ólík í eðli sínu, notuð á ólíkan hátt, henta ólíkum lífsstíl fólks og því sem sóst er eftir en eiga það sammerkt að vera tenging við náttúruna og sveitina. Það að komst úr nið stærri bæja og borgarinnar og gefa hversdagslífinu annað vægi, oft og tíðum sækja í einfaldara líf, slökun og hugarró er eftirsóknarvert,“ segir Halla Bára.
Bókin kemur formlega út í næstu viku og verður seld í öllum helstu bókaverslunum landsins, í Epal og í Haf Store.