Magnús Ármann fjárfestir og eiginkona hans, Margrét Íris Baldursdóttir, hafa fest kaup á fasteign sem stendur við Frjóakur 9 í Garðabæ. Kaupin fóru fram í janúar.
Húsið er 655,6 fm að stærð og var byggt 2017. Það var allt hannað að innan af Berglindi Berndsen innanhússarkitekt. Fasteignamat hússins er 261.300.000 kr. en húsið keyptu þau af Antoni Kristni Þórarinssyni athafnamanni.
Húsið er sérlega huggulegt að utan en það er málað í sveppalit og eru gluggar svartir ásamt handriði í kringum verönd.
Magnús hefur verið áberandi í íslensku viðskiptalífi í meira en tvo áratugi. Einu sinni rak hann skemmtistaðinn Astro sem naut mikilla vinsælda en svo færði hann sig svo yfir í fjárfestingar ásamt Sigurði Bollasyni vini sínum. Magnús var hluthafi í FL Group sem nú kallast Stoðir.
Stoðir hafa á undanförnum árum farið í gegnum miklar breytingar. Félagið var áður stærsti eigandi Glitnis. Í kjölfar falls bankans fór FL Group í greiðslustöðvun og nauðasamninga og eignaðist Glitnir, sem stærsti kröfuhafinn, félagið að stórum hluta. Árið 2017 urðu stórar breytingar í eigendahópi félagsins, en þá seldi Glitnir Holdco 40% hlut í félaginu og félögin S121 ehf. og S122 ehf. keyptu rúmlega helmingshlut.
Eigendur þeirra félaga voru áður lykilaðilar í FL Group fyrir hrunið. Meðal eigenda eru meðal annars Jón Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri félagsins, og eiginkona hans Björg Fenger, Einar Örn Ólafsson, Magnús Ármann og Örvar Kærnested. Þá eiga líka Jóhann Arnar Þórarinsson, forstjóri Foodco, og Malcolm Walker, eigandi Iceland foods í Bretlandi, hlut í félaginu.
Magnús og Margrét Íris gengu í hjónaband í nóvember síðastliðnum en þau eiga þrjú börn. Það ætti því ekki að þrengja að neinum á nýja heimilinu.