„Reyni að lifa innihaldsríku hversdagslífi“

Margrét Jónsdóttir leirlistakona býr og starfar á Akureyri.
Margrét Jónsdóttir leirlistakona býr og starfar á Akureyri.

Margrét Jónsdóttir leirlistakona býr og starfar á Akureyri. Heimilið hennar er engu öðru líkt þar sem fallegir munir eftir hana kallast á við náttúrulega liti og notaða hluti. 

Margrét hefur aldrei efast um hvað hún vildi gera í lífinu. Hún er með ákveðinn stíl sem er einstakur á svo margan hátt. Ljósir litir og gamlir hlutir eru eitthvað sem minnir á hana.

Hún fór ung til útlanda í nám en útskrifaðist sem leirlistakona árið 1985.

„Í Danmörku stundaði ég nám við listiðnaðarskólann í Kolding. Nú þegar ég hugsa til baka þá finnst mér áhugavert hvað ég var ákveðin í því að feta þessa braut og hvað ég sýndi mikið sjálfstæði með því að fara svona ung af stað.“

Margrét gerir fallega muni sem hún selur í gallerí sínu …
Margrét gerir fallega muni sem hún selur í gallerí sínu á Akureyri. Eins er hægt að nálgast vörurnar hennar í gegnum Facebook, þaðan sem hún sendir vörur víða um landið. mbl.is

Finnur tilganginn í hversdaglseikanum

Hversdagslífið hefur lengi heillað hana, enda til mikils að vinna að finna tilgang í hversdagsleikanum.

„Í mínum huga eru list og menning eitthvað sem er samofið tilveru minni og því að lifa innihaldsríku hversdagslífi. Lífið væri nú heldur snautlegt ef við nytum ekki tónlistar, myndlistar, bókmennta og allrar þeirrar sköpunar sem manneskjan getur af sér.“

Margrét starfar við áhugamál sitt og er alltaf ánægð í …
Margrét starfar við áhugamál sitt og er alltaf ánægð í vinnunni sinni. mbl.is

Margrét var ung að árum þegar hún fór að taka eftir hlutunum í kringum sig og segir að verkin hennar í dag séu eitthvað sem hún gæti hugsað sér að hafa í kringum sig.

„Ég man alltaf eftir því þegar ég sá parketgólf í húsi í fyrsta sinn, þá hef ég verið svona fjögurra ára, það var lagt í síldarbeinamunstur og mér fannst þetta það fallegasta sem ég hafði séð. Mér fannst alveg stórkostlegt að mega ganga á þessu gólfi og ég man líka svo vel eftir „terasso“-gólfinu í anddyrinu á Bæjarskrifstofunum á Akureyri þegar ég var krakki. Þar vann pabbi og mér þótti auðvitað gaman að heimsækja hann í vinnuna og ekki síst fyrir það að geta gengið á þessu fallega gólfi.

Stund á milli stríða á verkstæði Margrétar á Akureyri.
Stund á milli stríða á verkstæði Margrétar á Akureyri. mbl.is

Fagurfræðin sem hver og einn býr yfir kemur bæði frá eigin hjarta og svo verður maður fyrir áhrifum frá umhverfinu og uppeldinu eins og þessar minningar sýna. Þegar ég skapa hluti þá fylgi ég eigin sannfæringu og bý það til sem mig langar að hafa í kringum mig.“

Er glöð í vinnunni

Margrét segir að það hafi snemma komið í ljós hvert hugur hennar stefndi.

„Ég tel mig ótrúlega heppna að hafa getað uppfyllt þann draum. Þegar ég var lítil teiknaði ég mikið og hafði gaman af því að teikna bolla, skálar og aðra nytjahluti svo það má segja að ég hafi snemma byrjað að hugsa á þeirri braut þó svo ég hafi ekki áttað mig á því þá að ég ætti eftir að verða leirlistakona síðar. Ég komst svo í kynni við leirinn þegar ég var 14 ára og byrjaði í gagnfræðaskóla. Þar var yndislegur kennari og listakona, hún Ragnheiður Valgarðsdóttir, sem kynnti mér leirinn og ýmsa aðra sköpun. Hún skynjaði hvað ég var áhugasöm og hvatti mig óspart áfram.“

Margrét blandar saman fallegum litum og formum.
Margrét blandar saman fallegum litum og formum. mbl.is

Margrét segir að hún hafi alltaf haft gaman af því að vinna.

„Ég fer nánast alltaf glöð til vinnu. Ég er með gott verkstæði og þangað mæti ég klukkan 8 á morgnana, reyndar fer fyrsti hálftíminn í að drekka kaffi en svo hefst ég handa. Á kvöldin áður en ég sofna hugsa ég um komandi dag, hvernig ég ætla að haga honum og hverju ég ætla að áorka.“

Margrét segir fátt skemmtilegra en að sjá hluti sem hún hafi gert hjá öðrum.

„Ég gleðst auðvitað yfir því að fólk vilji hafa hluti eftir mig í kringum sig til nytja og fegrunar. Stundum sé ég hlutina mína úti í gluggum þegar ég er á göngu, þá blikka ég til þeirra og sendi þeim kveðju.“

Bjó til borðstofuborðið sjálf fyrir 30 árum

Margrét er um þessar mundir að vinna ýmsa nytjahluti, bæði sérpantanir og einnig fyrir galleríið sitt.

„Það sem ég nota sem innblástur akkúrat þessa dagana eru hlutirnir sem eru í galleríinu mínu, ég horfi á þá og hugsa; hvað stæði nú fallega með þessum hlut? Svo bý ég það til og skapa þannig nýja heild. Það er gaman að nálgast sköpunina á mismunandi hátt og finna innblástur út frá ólíkum forsendum.

Ég mun opna sýningu 17. júní næstkomandi á Hrafnseyri við Arnarfjörð og ég er farin að undirbúa hana með hugmyndavinnu og lestri á ævisögu Jóns Sigurðssonar. Ég hlakka til að vinna að því verkefni.“

Margrét er mikið fyrir ljósa liti. Hún segir hvíta litinn standa fyrir vissan léttleika og ró; einskonar fágaðan einfaldleika.

„Ég forma hlutina mína þannig að þeir eru oft ósamhverfir, jafnvel svolítið skakkir og kantarnir ójafnir. Þannig fæ ég það líf í formið sem ég er að sækjast eftir. Hvíti liturinn í öllum sínum einfaldleika leyfir forminu að njóta sín. Það má segja að allir litir geti speglast í þeim hvíta þannig að kannski er hann margræðari en maður heldur við fyrstu sýn.

Á heimili okkar er ég mikið með náttúruliti og efnisvalið er líka þannig og það má einnig segja um fatavalið mitt.

Margir hlutir sem ég á hafa fylgt mér langalengi og mér finnst það oft gefa hlutunum meira gildi að það sjáist að þeir hafi verið notaðir. Borðstofuborðið okkar sem ég bjó til er að verða 30 ára og það er orðið alllífsreynt. Það á örugglega eftir að fylgja mér alla tíð og ætli ég sigli ekki bara á því inn í eilífðina fyrir rest.“

Borðstofuborðið hennar Margrétar bjó hún til sjálf fyrir þrjátíu árum.
Borðstofuborðið hennar Margrétar bjó hún til sjálf fyrir þrjátíu árum.
Margrét er að margra mati með einstakan smekk og eru …
Margrét er að margra mati með einstakan smekk og eru leirlistaverkin hennar víða. mbl.is
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda