Við Bæjarlind í Kópavogi er búið að byggja glæsilegt 12 hæða hús sem státar af fallegum íbúðum. Hverfið er nýlegt og mjög vel staðsett enda afar stutt frá stofnbrautum.
Innanhússhönnuðurinn Sara Dögg Guðjónsdóttir, sem lesendur Smartlands þekkja vel fyrir smekklegheit sín, stíliseraði tvær íbúðir í húsinu. Hún valdi húsgögn, ljós, fylgihluti og gluggatjöld og er heildarmyndin falleg.
Húsið sjálft er einnig mjög glæsilegt og vekur eftirtekt, en það er álklætt með Maya gold klæðningu og svörtum flísum. Þess má geta að húsið fékk hönnunarverðlaun Kópavogsbæjar árið 2019. Svo má ekki gleyma að minnast á það að útsýnið úr íbúðunum er einstakt.
Allar svalir eru með svalalokunum sem gerir það að verkum að notagildi svalanna verður meira og stækkar íbúðirnar.