Hefur sjaldan keypt húsgögn

Una Margrét Jónsdóttir dagskrárgerðarmaður á RÚV og rithöfundur býr ásamt …
Una Margrét Jónsdóttir dagskrárgerðarmaður á RÚV og rithöfundur býr ásamt eiginmanni sínum við Ásvallagötu í Reykjavík. mbl.is/Arnþór Birkisson

Una Margrét Jónsdóttir, rithöfundur og dagskrárgerðarmaður á RÚV, býr ásamt eiginmanni sínum, Hólmsteini Eiði Hólmssteinssyni, við Ásvallagötu í Reykjavík. Á heimili þeirra er lítið verið að hrófla við hlutum og er nýtni í forgrunni. Una segist vera alin upp af peningalitlum listamönnum og því hafi ákveðinn hugsunarháttur fylgt henni alla tíð.

Ásvallagatan er fyrsta íbúðin sem Una Margrét keypti en fram að þeim tíma hafði hún búið í foreldrahúsum, leigt með vinkonu sinni og búið í París. Það var árið 1996 sem hún hnaut um íbúðina, sem uppfyllti þau skilyrði sem hún var að leita eftir. Á þessum tíma var hún einhleyp og ólofuð.

„Mig langaði til að vera í Vesturbænum, miðbænum eða Þingholtunum eða í 101 eins og sagt er. Ég var alin upp í gamla Vesturbænum og vildi gjarnan vera nálægt foreldrum mínum. Ég er alin upp í gömlu húsi og vildi búa í gömlu húsi. Ég er hrædd við bruna, þess vegna vildi ég steypt hús. Ég er svo eldhrædd að ég þori varla að kveikja á eldspýtu,“ segir Una Margrét.

Una Margrét hefur oft reynt að breyta í stofunni en …
Una Margrét hefur oft reynt að breyta í stofunni en það hefur ekki komið vel út. Sófinn í stofunni fékk hún gefins frá gamalli samstarfskonu. Arnþór Birkisson
„Þegar ég keypti íbúðina og flutti inn í hana haustið …
„Þegar ég keypti íbúðina og flutti inn í hana haustið 1996 leit ég á þessa gömlu símahillu og hugsaði: "Á þessari hillu verður að vera svartur skífusími!" Svo fór ég í Kolaportið og keypti þar þennan síma. Hann er enn í góðu lagi. Það er bara verst að mér skilst að á næsta ári breytist símakerfið svo þá verður víst ekki lengur hægt að nota svona skífusíma,“ segir Una Margrét. Arnþór Birkisson

Þannig að þú hefur aldrei reykt?

„Nei, það hef ég ekki gert. Við erum með lítið tóbakshorn í íbúðinni en það reykir enginn þar. Það var í rauninni ekki sett upp til þess að reykja í því heldur af því að við eignuðumst óvart ýmislegt sem tengdist reykingum: pípu og tóbaksdós föður Eiðs, eldspýtustokka frá ýmsum löndum og gamla pípuauglýsingu í ramma. Við settum þetta í tóbakshornið sem eins konar sýningargripi,“ segir hún en þótt öll tól og tæki séu til staðar til reykinga í tóbakshorninu þá er ekki reykt þar.

„Það eru svo breyttir tímar og fólk fer af sjálfsdáðum út ef það þarf að reykja. Þetta er ekki eins og á uppvaxtarárum mínum þegar allir reyktu alls staðar. Tvisvar á hverju ári fór ég í rútu á milli Akureyrar og Reykjavíkur. Við vorum alltaf á sumrin á Akureyri hjá ömmu minni og afasystur sem bjuggu saman í íbúð. Stundum vorum við þar á jólunum líka. Í þessum rútuferðum var reykt svo mikið að ég þurfti að kasta upp,“ segir Una Margrét og minnist þess að þegar hún var að fara í þessar fyrstu rútuferðir tók heilan dag að fara á milli Akureyrar og Reykjavíkur.

Þegar kom að því að finna réttu íbúðina var Una Margrét með ákveðnar kröfur. Ein af þeim var að íbúðin væri á annarri hæð.

Myndina af Jesú keypti Una Margrét í Kolaportinu. „Maður sér …
Myndina af Jesú keypti Una Margrét í Kolaportinu. „Maður sér oft gamlar helgimyndir í ramma, en mér fannst þessi dálítið sérstök og frumleg. Fjölskyldan er að biðja borðbæn þegar Jesús kemur að borðinu. Enginn sér hann nema litla stúlkan sem dregur fram stól handa honum. Ég hef hvergi séð þessa mynd fyrr eða síðar. Við höfum hana í bókaherberginu okkar niðri í kjallara.“ Arnþór Birkisson
„Þrjár af þessum dúkkum og tveir bangsar eru frá því …
„Þrjár af þessum dúkkum og tveir bangsar eru frá því að ég var lítil, en hitt hef ég allt eignast eftir að við Eiður tókum saman. Það var alveg óvart, ég ætlaði ekki að fara að safna dúkkum og böngsum. En þegar ég sé dúkku eða bangsa sem mér finnst hafa persónuleika finnst mér stundum eins og þau horfi á mig og biðji mig að kaupa sig. Sumt hefur mér verið gefið. Og allt í einu var kominn þessi fjöldi. Þau hafa öll nöfn,“ segir hún. Arnþór Birkisson

„Þegar ég rakst á þessa íbúð, sem var af alveg mátulegri stærð, þá var rétta íbúðin fundin. Þetta er skemmtileg íbúð en í þessum gömlu verkamannabústöðum við Ásvallagötu, sem voru byggðir 1937 og teiknaðir af Gunnlaugi Halldórssyni arkitekt, eru mjög góðar íbúðir. Mér fannst þessi tilvalin. Hún kostaði 5,2 milljónir, en þetta var rétt áður en verð á íbúðum hækkaði upp úr öllu valdi. Ég fékk aðstoð frá foreldrum mínum þegar ég keypti íbúðina og mamma fékk lengi að nota bókaherbergið sem vinnuherbergi. Svo afhenti hún okkur það að lokum,“ segir Una Margrét.

Til að byrja með bjó Una Margrét ein í íbúðinni en svo kom Hólmsteinn Eiður, eiginmaður hennar, til sögunnar, en hún kallar hann Eið. Þau Eiður gengu í hjónaband 1999. Spurð hvort smekkur þeirra hjóna sé svipaður kemur í ljós að þau eiga margt sameiginlegt annað en að finnast gömul húsgögn falleg.

„Við höfum svipaðan smekk og erum bæði frekar gamaldags. Svo erum við bæði svolítið sérvitur. Þess vegna náðum við saman. Við erum mikið fyrir bækur. Það er okkar besta skemmtun en eini gallinn er að bækur taka svo mikið pláss,“ segir hún.

Arnþór Birkisson

Kom Eiður ekki með nein húsgögn með sér þegar hann flutti inn?

„Nei, hann flutti ekki inn með nein húsgögn og við höfum keypt afskaplega lítið. Borðstofuborðið er frá ömmu minni og var áður í eigu langömmu minnar. Sófinn í stofunni kemur frá Bergljótu Haraldsdóttur sem starfaði með mér á þeim tíma sem ég keypti íbúðina. Sófinn kom frá bernskuheimili hennar, en enginn í hennar fjölskyldu gat nýtt sér hann.

Það fyndnasta eru eiginlega bókahillurnar í stofunni. Þær voru áður í eigu Félags bifreiðaeigenda, sem okkur finnst fyndið því við eigum ekki bíl. Maðurinn í fjölskyldunni minni sem útvegaði okkur hillurnar hafði verið leigubílstjóri í mörg ár en hann reddaði okkur þeim. Ég er alin upp við nýtni því foreldrar mínir voru auralitlir listamenn. Af því að ég er mikið fyrir það gamla hefði ég viljað hafa upprunalegar innréttingar í eldhúsi. En innréttingarnar höfðu verið endurnýjaðar áður en ég flutti inn. Þessi eldhúsinnrétting sem við erum með er þægileg,“ segir hún.

Þegar ég spyr Unu Margréti hvort hún hafi í hyggju að skipta eldhúsinnréttingunni út fyrir svarta innréttingu og mála veggina í gráum lit segir hún það ekki vera á stefnuskránni. Hún segist fagna fjölbreytni í litum og sér finnist of mikil einhæfni á þeim heimilum sem mest fá að sjást í blöðum og tímaritum, þar sem litirnir hvítt, grátt og svart eru algengastir og mínimalismi ráðandi, en margir innanhússarkitektar á seinni árum hafa lagt áherslu á þann stíl. Unu Margréti finnst þessi tíska kuldaleg og óskar þess að hún fari að renna sitt skeið á enda. 

Í eldhúsinu er innrétting frá sirka 1960. Hún hefði frekar …
Í eldhúsinu er innrétting frá sirka 1960. Hún hefði frekar vilja hafa upprunalega innréttingu en segir að þessi geri sitt gagn. Hún ætlar ekki að skipta henni út fyrir svarta nútímainnréttingu. Arnþór Birkisson
Una Margrét Jónsdóttir
Una Margrét Jónsdóttir Arnþór Birkisson

Hnaut um ástina heima

Una Margrét er gamaldags og fastheldin og að eigin sögn sérvitur. Þegar ég spyr hana hvernig hún hafi hnotið um eiginmann sinn kemur í ljós að hann er frændi hennar og fann hún hann á æskuheimili sínu.

„Við kynntumst heima hjá mér. Með nokkrum hléum bjó ég í foreldrahúsum til þrítugs. Síðasti veturinn minn þar var veturinn 1995-96 þegar ég var 29 ára. Þá kom Eiður til að leigja hjá okkur því hann er frændi minn. Mamma vissi af honum en við höfðum aldrei sést. Hann átti heima á Akureyri. Hann kemur þarna um haustið, en hann er sex árum yngri en ég.

Þegar við Eiður hittumst fyrst var það þannig að mamma sagði: „Þetta er Una Margrét, dóttir okkar,“ og þá sagði Eiður: „Una! Það er bara eins og skáldið Davíð Stefánsson segir ...“ og fór svo með allt ljóðið „Til Unu“.

Það var einmitt ástarljóð. Margar stelpur hefðu hugsað að hann væri snarruglaður. Ég var hins vegar nógu sérvitur til að vita að það væri kostur að hann kynni ljóð eftir Davíð Stefánsson utan að,“ segir hún og hlær.

Það hefur ekkert stoppað þig þegar kom að ástinni að þið væruð skyld?

„Neinei, ég vissi að þessi skyldleiki væri alveg leyfilegur. Ég lærði það í skóla. Ég hafði passað suma frændur hans sem eru jafnskyldir mér en ég veit ekki hvort hann hefði verið jafnspennandi ef ég hefði passað hann þegar ég var 13 ára og hann sjö ára,“ segir hún á léttum nótum.

Una segir að eiginmaður hennar verði heltekinn þegar hann fær áhuga á einhverju og þegar þau kynntust var Davíð Stefánsson átrúnaðargoð hans.

„Svo varð Halldór Laxness næsta átrúnaðargoð og þá fór hann að safna bókum hans og í dag eigum við um 600 bækur eftir hann,“ segir hún.

Hér má sjá listaverk eftir móður Unu Margrétar, Kristínu Jónsdóttur …
Hér má sjá listaverk eftir móður Unu Margrétar, Kristínu Jónsdóttur frá Munkaþverá. „Kannan og bollinn eru afmælisgjöf frá vinkonu minni, Hildigunni Jónsdóttur sem á heima í Reykjadal. Hún keypti þetta í búð fyrir norðan sem heitir "Bakgarður Tante Grethe" (oft bara kölluð Bakgarðurinn) og ég er sérlega hrifin af þeirri búð, enda hittu kannan og bollinn alveg í mark.“ Arnþór Birkisson

Þegar Una er spurð hvort hún sé mikið að færa til hluti og breyta kemur í ljós að hún er vanaföst og því er yfirleitt alltaf allt á sama stað.

„Í stofunni hef ég hugsað um að breyta til. Gallinn er að þegar ég hugsa hvernig ég gæti breytt þá kemst ég að því að þetta er þægilegast svona eins og það er. Það eina sem hefur breyst í stofunni er að skápurinn með glerhurðinni var á öðrum stað. Ástæðan fyrir því er að það kom bullandi myglusveppur. Ég hafði séð að veggurinn var orðinn svolítið svartur í hornunum. Ég hafði ekkert velt þessu fyrir mér fyrr en móðir mín gerði athugasemd við þetta. Svo var sérfræðingur kallaður til. Þegar sérfræðingurinn skoðaði myglusveppinn setti hún á sig andlitsgrímu og sagði svo með miklum undrunarhreim: „Já!! Og er enginn veikur?“ Hún sagði líka að þetta væri einn versti myglusveppur sem hún hefði séð. En við fundum ekki fyrir neinum veikindaeinkennum.

Þá kom í ljós að það var mikil mygla í veggnum og því þurfti að taka íbúðina í gegn, skrapa málninguna af, setja efni á og mála svo með myglusveppadrepandi málningu. Í framhaldinu þurftum við að þrífa allt, líka allar bækurnar, með myglusveppaeyði. Það var mikið verk,“ segir hún en síðan er liðinn um það bil einn og hálfur áratugur og síðan þarna hefur aldrei komið upp mygla aftur.

„Við höfðum ekki hugað nógu vel að því að lofta út. Ég er kulsækin og vil helst ekki opna glugga en við fundum leið og loftum nú út á daginn meðan við erum í vinnu. Þakið hafði lekið, þannig byrjaði rakinn. Svo var gert við þakið og rakinn varð eftir. Þá verða myglusveppir kátir.“

Una Margrét og Eiður eru mikið bókafólk en gallinn við …
Una Margrét og Eiður eru mikið bókafólk en gallinn við þessa ástríðu er hvað bækurnar taka mikið pláss. Blái liturinn fer vel við bókahillurnar. Arnþór Birkisson

Þið vanaföstu hjónin eruð ekkert að íhuga að flytja?

„Nei, ég býst við því að búa í þessari íbúð það sem ég á eftir ólifað. Kannski þarf maður einhvern tímann að flytja í þjónustuíbúð en ég efast frekar um það. Mér líst alltaf svo illa á breytingar. Ég er ekki mikið fyrir þær,“ segir hún.

Hver er þinn uppáhaldsstaður á heimilinu?

„Uppáhaldsstaðurinn minn er uppi í rúminu, því að þessi ágæta íbúð hefur einn galla og verður svolítið köld á veturna. Þess vegna les ég mikið í rúminu á kvöldin. Þá er yfirleitt hlýjast í svefnherberginu. Svo er bókaherbergið í uppáhaldi. Mér finnst notalegt að taka eina og eina bók úr skápnum. Stundum förum við með tvo kaffibolla og konfekt og sitjum þar saman. Það er svolítið eins og að fara á kaffihús heima hjá sér.“

Hvað drífur þig áfram í lífinu?

„Það er það að ég er svo lífsglöð og finnst lífið dásamlegt. Ég hef vissulega upplifað tímabil þar sem mér leið hræðilega og þess vegna kann ég að meta lífið. Þótt lífið sé fullt af hryllingi þá er það fullt af fegurð. Ég er alin upp í umhverfi lista og það er það umhverfi sem ég sæki í. Sem endurspeglar heimilið,“ segir hún.

Tóbakshornið í íbúðinni á sér sögu en hjónin reykja þó …
Tóbakshornið í íbúðinni á sér sögu en hjónin reykja þó ekki. Arnþór Birkisson
Pípuna erfði Eiður eftir föður sinn Hólmstein Aðalgeirsson.
Pípuna erfði Eiður eftir föður sinn Hólmstein Aðalgeirsson. Arnþór Birkisson
Arnþór Birkisson
„Þetta er Remington-ritvél pabba míns, Jóns Óskars, sem var rithöfundur, …
„Þetta er Remington-ritvél pabba míns, Jóns Óskars, sem var rithöfundur, fæddur 1921. Hann hefur líklega eignast vélina á 5. eða 6. áratugnum og notaði hana fram yfir 1960. Svo seldi hann Brynjari Viborg frænda mínum hana fyrir lítið þegar hann (pabbi) fékk sér nýja ritvél. Eftir að pabbi dó (árið 1998) gaf Brynjar mér Remington-ritvélina.“ Arnþór Birkisson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda