Guðmundur Örn Þórðarson, fjárfestir sem er oft kenndur við Skeljung, hefur fest kaup á einbýlishúsi við Stekkjarflöt 22 í Garðabæ. Hann greiddi 185 milljónir fyrir húsið. Guðmundur Örn hefur verið töluvert í fréttum síðustu ár en í nóvember seldi hann öll bréf sín í tryggingafélaginu VÍS.
Húsið við Stekkjarflöt 22 er 191 fm einbýli og var það byggt 1965. Fasteignamat hússins er 89.000.000 kr. sem er töluvert undir kaupverði hússins. Skýringin á því er líklegast sú að búið er að endurnýja húsið að nánast öllu leyti og er eins og nýtt þótt það sé á sextugsaldri.
Seljandi hússins er Valdimar Tryggvi Kristófersson eigandi og ritstjóri Garðapóstsins. Kaupin fóru fram 28. febrúar síðastliðinn og fékk Guðmundur Örn húsið afhent á föstudaginn var.