Stóll Helga Hallgrímssonar var frumsýndur á HönnunarMars í gær. Það er danska húsgagnafyrirtækið House of Finn Juhl sem framleiðir stólinn.
Eyjólfur Pálsson, stofnandi Epal, vann að endurgerð stóls Helga Hallgrímssonar ásamt eiganda stólsins, Kristjáni Garðarssyni arkitekt, og Ivan Hansen hjá House of Finn Juhl.
„Helgi Hallgrímsson var einn virtasti húsgagnaarkitekt tuttugustu aldar en nafn hans er þó ekki á allra vörum, þar sem maðurinn var með eindæmum hógvær. Það er okkur sönn ánægja að kynna hans fallegu hönnun fyrir nýrri kynslóð Íslendinga,“ segir Eyjólfur himinlifandi.
Helgi útskrifaðist úr Listiðnaðarskólanum í Kaupmannahöfn árið 1938 og var þar í vinfengi við marga þekktustu hönnuði hinnar dönsku hönnunarbylgju og taldi hann meðal annars Hans Wenger og Börge Mogensen til góðra vina sinna.
„Pabbi starfaði sem húsgagnaarkitekt alla tíð og kenndi jafnframt fjölmörgum verðandi arkitektum og hönnuðum við Iðnskólann í Reykjavík. Verk hans vöktu mikla athygli en hann hannaði meðal annars innréttingar fyrir útibú Landsbankans á Selfossi og fleiri,“ segir Rut Helgadóttir sem margir þekkja sem fyrrverandi ritstjóra Gestgjafans en hún er dóttir Helga. Hún bendir á að eitt þekktasta verk Helga, forláta ruggustóll, er til sýnis á Hönnunarsafni Íslands. Hún lýsir föður sínum sem einstökum „séntilmanni“ og heimsborgara, sem var svolítið sérstakt fyrir mann sem var alinn upp af fátæku fólki í barnamergð á Patreksfirði.
Stóllinn sem nú er endurgerður er í eigu Kristjáns Garðarssonar arkitekts, sem fékk hann að gjöf frá föður sínum. Kristján er annálaður smekkmaður og hefur notið mikillar velgengni í starfi sínu en hann var einn af þeim sem hönnuðu Veröld - hús Vigdísar.
„Árið 1960 sýndi Helgi Hallgrímsson þennan forláta armstól og fótskemil á sýningu Félags húsgagna- og innanhússarkitekta. Faðir minn, Garðar Gíslason, sem var þá ungur maður í Menntaskólanum í Reykjavík, fór á sýninguna og rak strax augun í stólinn góða. Hann hafði ekki getu til að kaupa hann en var svo heppinn að móðir hans, sem var með í för, ákvað að kaupa stólinn og gefa honum og síðan hefur hann verið stöðugri notkun í fjölskyldunni í 60 ár,“ segir Kristján.
Það næsta sem gerist er að Kristján Garðarsson og Eyjólfur Pálsson taka samtal og í framhaldinu ákváðu þeir að endurgera hinn fallega stól. Eyjólfur hafði svo milligöngu um samstarf við House of Finn Juhl, en þar á bæ heilluðust menn af þessum fallega grip.
„Það er okkur sönn ánæga að varpa ljósi á Helga Hallgrímsson og við vonum að hann fái þann sess í hönnunarsögunni sem hann á skilið, bæði á Íslandi og í hinu víðara samhengi,“ segir Eyjólfur.