Lilja Hrönn Hauksdóttir, sem oft er kennd við tískuvöruverslunina Cosmo, hefur sett glæsihús sitt í Arnarnesi á sölu. Húsið er engin smásmíði heldur 516 fm að stærð.
Húsið var byggt 1980 og er það teiknað af Kjartani Sveinssyni, konungi rjómatertuhúsanna. Hann var einn afkastamesti arkitekt landsins og í kringum 1980 vildu þeir sem meira máttu sín í íslensku samfélagi búa í húsi eftir hann.
Rjómatertuhús Kjartans höfðu nokkra sérstöðu því þar mátti sjá súlur fyrir utan hús og boga fyrir ofan glugga. Það sem einkenndi þessi hús var mikil reisn. Þegar inn var komið tók oft við stór og glæsilegur stigi sem minnti töluvert á Southfork-búgarðinn í sjónvarpsþáttunum Dallas sem nutu ferlega mikilla vinsælda hérlendis. Í Arnarnesinu eru þó nokkur hús eftir Kjartan Sveinsson sem gefur hverfinu hátíðlegt yfirbragð.
Lilja Hrönn festi kaup á húsinu 1995 en þá var tískuverslunin Cosmo farin að ganga mjög vel en Lilja stofnaði verslunina 1987. Frá fyrsta degi hefur hún staðið vaktina bak við búðarborðið eins og herforingi og hafa íslenskar konur notið góðs af því.