„Menntakerfið er ekki hannað fyrir menn eins og mig“

Ljósmynd/Saga Sig

Tónlistarmaðurinn Kristinn Arnar Sigurðsson, betur þekktur undir listamannsnafninu Krassasig, hannaði og smíðaði nýlega einstaklega fallega innréttingu. Innréttingin er heima hjá vini hans og Skoðanabróður Bergþóri Mássyni á Hverfisgötu. 

„Þetta er mjög lítil íbúð, 36 fermetrar, en það er mjög góð lofthæð í henni svo það lá beint við að nýta sér það. Ég átti í góðu samtali við Bergþór í upphafi og við vorum sammála um að vilja hafa rýmið breytilegt með aðstöðu fyrir skrifborðsvinnu, matarboð, slökun og svefn og að hægt væri að laga rýmið að því sem væri í gangi hverju sinni,“ segir Krassasig í viðtali við mbl.is.

Hann segist hafa fengið mikinn innblástur frá youtuberásinni Never To Small þar sem fjallað er um hönnun á svona litlum rýmum og hvernig fá má sem mest út úr litlu. Hann segist heillaður af því konsepti. 

Innréttingin passar einstaklega vel inn í íbúðina.
Innréttingin passar einstaklega vel inn í íbúðina. Ljósmynd/Magnús Andersen
Innréttingin er í senn rúm, skrifstofa, og borðstofa.
Innréttingin er í senn rúm, skrifstofa, og borðstofa. Ljósmynd/Magnús Andersen

Lentirðu einhvern tímann á vegg í ferlinu?

„Já oft, mjög oft. Til dæmis þegar við ætluðum að fara að bora fyrir staurnum í gólfið föttuðum við að það gætu verið vatnslagnir beint fyrir neðan, við vorum komnir með borinn í vélina og alveg að fara af stað þegar við ákváðum að fá lánaða hitamyndavél og tékka á þessu. Þá var akkúrat hitalögn beint undir þar sem við ætluðum að fara að bora, þannig að við þurftum að færa staurinn aðeins. Svo voru alls konar litlir hlutir sem þurfti að leysa, en þá var bara staldrað við og fundin lausn,“ segir Krassasig. 

Aðspurður hvað sé það besta við innréttinguna segist hann vera mjög ánægður með borðið og hvernig sé hægt að snúa því og búa til borðstofuborð úr skrifborði.

Hægt er að snúa borðinu út svo það virkar einnig …
Hægt er að snúa borðinu út svo það virkar einnig sem borðstofuborð. Ljósmynd/Magnús Andersen
Ljósmynd/Magnús Andersen

Einhverjir gætu haldið að á bak við hönnun hans lægi margra ára iðn- eða háskólanám en svo er ekki. Krassasig er með stúdentspróf frá Myndlistarskólanum í Reykjavík. „Svo lærði ég að smíða bara með því að vinna á smíðaverkstæðum á sumrin. Ég hef alltaf fallið illa inn í hefðbundið nám og átt erfitt með að fá út úr því það sem ég þarf,“ segir Krassasig. 

„Menntakerfið er ekki hannað fyrir menn eins og mig. Ég var mjög fljótur að læra að lesa og alltaf mjög góður í stærðfræði og flestu öðru en var yfirleitt sagt að bíða eftir hinum í bekknum og æða ekki áfram. Ég fékk heldur ekki rými eða hvatningu fyrir aðra hluti sem ég var góður í eins og að teikna, það var álitið föndur og átti að fara fram í frítíma.

Mér finnst að það þurfi að vinna menntun miklu meira út frá einstaklingnum, spyrja krakka „hvernig sérð þú heiminn, og hvað vilt þú gera til að bæta við hann eða breyta?“ Vera til staðar til að gefa krökkum verkfæri, innspírasjón og þekkingu. Mín helsta menntun hefur farið fram á YouTube.

Heimurinn er þannig í dag, það er ótrúlega auðvelt að afla sér hvaða þekkingar sem er, hvenær sem er. Það er ekki það helsta sem skólinn þarf að vera að gera. Mér finnst að menntun ætti að vera meira eins og að rækta blóm; gefa því vatn og sólarljós og vera tilbúinn að bregðast við ef því líður ekki vel eða vantar eitthvað annað. Svo fylgistu með því vaxa.“

Krassasig er með stúdentspróf frá Myndlistarskólanum í Reykjavík.
Krassasig er með stúdentspróf frá Myndlistarskólanum í Reykjavík. Ljósmynd/Hrefna Björg

Krassasig er ekki bara handlaginn heldur syngur hann líka eins og engill. Hann hefur gefið út tvö lög á þessu ári undir nafninu Krassasig. Lagið Einn dag í einu fór í 1. sæti vinsældalista Rásar 2 og var í 10 vikur á listanum og nú síðast gaf hann út lagið Þú ert eins og hún, sem hefur fengið góðar móttökur.

Hann var einnig iðinn við tónleikahald núna í júlí, fór á Íslandstúr að hita upp fyrir Vök og hitaði einnig upp fyrir tónlistarmanninn Auð í Gamla bíói og sá þar einnig um sviðsmynd. Í vor leikstýrði hann tónlistaratriðinu í lokaþættinum hjá Gísla Marteini þar sem Auður flutti átta mínútna langt verk, Ljós. Hann leikstýrði einnig vídeóverki með Hallgrími Helgasyni rithöfundi og myndlistarmanni sem kemur út í haust og sömuleiðis sjónvarpsauglýsingu sem fer í birtingu á næstu dögum.

Krassasig vinnur nú að því ásamt góðum hópi listamanna að opna stúdíó og gallerí á Bræðraborgarstíg í Vesturbænum.

Krassasig hefur fengist við ýmislegt síðustu misseri og gefið út …
Krassasig hefur fengist við ýmislegt síðustu misseri og gefið út tvö lög það sem af er ári. Ljósmynd/Hrefna Björg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda