Þessi jól eru að öllum líkindum síðustu jólin sem Donald og Melania Trump munu eyða í Hvíta húsinu. Það er í verkahring forsetafrúarinnar að skipuleggja og hanna jólaskreytingarnar en skreytingar Melaniu undanfarin ár hafa verið á milli tannanna á fólki.
Fyrstu jól hjónanna í Hvíta húsinu voru árið 2017. Þá valdi Melania hvítt þema sem var einstaklega fallegt og hátíðlegt. Í nokkrum herbergjum voru þó mun hlýlegri skreytingar. Alls lét hún setja upp 53 jólatré, yfir 12 þúsund skreytingar, tæpan fimm og hálfan kílómetra af jólaseríum, 71 jólakrans og fjöldann allan af piparkökuhúsum.
Árið 2018 missteig forsetafrúin sig að mati einhverra en þá fór hún yfir í rauðan og vísaði þar í rauða litinn í fána Bandaríkjanna. Himinhá rauð jólatré voru áberandi og þótti einhverjum trén minna á þættina Handmaid's Tale.
Í fyrra var þema jólaskreytinganna „Andi Bandaríkjanna“ og fór sem betur fer ekki fyrir brjóstið á neinum. Skreytingarnar voru einstaklega fallegar og hlýlegar. Þar fékk grænn litur jólatrjánna að njóta sín með gylltum skreytingum.