Mikilvægt að hafa fallegt í kringum sig um jólin

Guðmundur Pálsson og Margrét María Leifsdóttir.
Guðmundur Pálsson og Margrét María Leifsdóttir.

Margrét María Leifsdóttir er ein af þeim sem þora að prófa sig áfram þegar jólin eru annars vegar. Maðurinn hennar, Guðmundur Pálsson söngvari í Baggalúti, er vanur að syngja sig inn í hjörtu landsmanna á jólunum en ekkert verður af þeim tónleikum í ár. Svo ef til vill verður fjölskyldan meira saman þessi jólin. 

Margrét María Leifsdóttir verkfræðingur rekur utan hefðbundins vinnutíma Gallerí Hólshraun í Hafnarfirði ásam Hönnu Þóru G. Thorsteinsson og Árnýju Gyðu Steinþórsdóttur.

„Þar erum við með vinnustofu og gallerí þar sem hægt er að skoða handverkið okkar og vinnuaðstöðu. Ég er þar bMiæði með handrennda keramikmuni en einnig handlitað ullargarn sem ég vinn undir merkinu Today I Feel ásamt samstarfskonu minni, Þorbjörgu Sæmundsdóttur.“

Hvað tákna jólin fyrir þig?

„Jólin eru tákn hlýju og rólegheita og mikillar samveru með fjölskyldu og vinum. Mér finnst mjög mikilvægt að hafa fallegt í kringum mig á jólunum. Að kveikja á kertum og njóta þess að vera með þeim sem mér þykir vænt um.“

Leyfir börnum sínum að gera handgerðar gjafir fyrir jólin

Gerir þú mikið af keramiki fyrir jólin?

„Það er töluvert að gera í keramikinu fyrir jólin þar sem við stöllur í Gallerí Hólshrauni höfum haft fyrir sið undanfarin ár að hafa opið hús hjá okkur og þá vill maður geta sýnt fallega hluti. Ég geri mikið af diskum og skálum á fæti þar sem mér finnst það að lyfta köku eða matnum upp gera framsetninguna svo miklu betri. Fyrir jólin leyfi ég börnunum mínum líka oft að koma með á vinnustofuna og búa til jólaskraut og einhverja skemmtilega hluti úr leir sem þau svo gefa í jólagjafir. Ég á fjögur börn svo það er í ýmsu að snúast fyrir jólin.“

Í Gallerí Hólshrauni eru þær stöllur í Today I Feel líka að handlita og selja ullargarn.

„Við litum eingöngu hágæða merino-ullargarn og mohair- og silkiblöndur þar sem það er svo mjúkt og dásamlegt að prjóna úr því. Við höfum yndi af því að þróa nýja liti og njótum þess að ímynda okkur þær fallegu flíkur sem prjónararnir sem það kaupa munu prjóna úr þeim.“

Hvað gefur þú vanalega í jólagjöf?

„Ég gef mjög oft handgerðar jólagjafir, ýmist saumaðar, prjónaðar, smíðaðar eða úr leir. Ég nýt þess að velja og hugsa út hvað ég telji að geti glatt einhvern sem mér þykir vænt um og hugsa fallega til viðkomandi á meðan ég er að búa hlutinn til. Maðurinn minn hefur til dæmis mjög oft fengið handprjónaða peysu í jólagjöf frá því að við kynntumst en sem betur fer er hann peysutýpa og notar þær flestar mjög mikið.“

Opin fyrir nýjungum í jólamatnum

Hvað ertu með í matinn á jólunum?

„Við fjölskyldan erum ekkert sérlega fastheldin á matarhefðir á aðfangadag. Það þýðir ekkert endilega að við séum eitthvað ævintýragjörn í matseld heldur höfum við bara prófað að hafa flestan hefðbundinn íslenska jólamat á borðum einhvern tímann. Við höfum meðal annars haft hangikjöt, rjúpur, hreindýr, gæs, purusteik, önd og svo auðvitað hamborgarhrygg en hann er reyndar vinsælastur hjá börnunum. Nú er þó dóttir okkar orðin grænmetisæta svo það verður eitthvað nýtt og spennandi í ár. Mér þykir þetta allt gott en mér finnst alveg ómissandi að hafa heimagert rauðkál með matnum, það kemur með jólabragðið fyrir mig. Eftirrétturinn er það eina sem er alltaf eins, ris a la mande með karamellusósu. Þessi eftirréttur hefur fylgt mér frá barnæsku og er uppskriftin að karamellusósunni frá föðurömmu minni. Þessi eftirréttur er heldur aldrei í boði nema á aðfangadag og því mjög sérstakt og spennandi að fá.“

Ertu mikið fyrir heimilið og skreytir þú fyrir jólin?

„Mér finnst mjög gaman að gera heimilið fallegt fyrir jólin. Mér finnst fallegast að skreyta með náttúrulegum efnum eins og greni og öðrum sígrænum plöntum, jólablómum eins og amaryllis, túlípönum og hýasintum og svo auðvitað jólaljósum og kertum. Við byrjum að bæta þessum hlutum inn á aðventunni en á Þorláksmessu er jólaskrautið sótt og þá er tréð skreytt með alls konar gömlu og nýju skrauti, bæði erfðagóssi og handgerðu skrauti frá börnunum. Það er hefð hjá okkur að börnin skreyti tréð og það er eins og þau sé að hitta gamla vini þegar þau draga upp hverja kúluna á fætur annarri og hengja á tréð með virktum.“

Jólahaldið verður öðruvísi í ár

Margrét María segir að jólin verði eilítið öðruvísi þetta árið.

„Ég held að aðstæðurnar verði öðruvísi í ár. Maðurinn minn, Guðmundur Pálsson, söngvari í Baggalúti, hefur yfirleitt verið meira og minna fjarverandi í tónleikahaldi í aðdraganda jóla. Það verður því öðruvísi fyrir okkur öll ef lítið verður um tónleikahald og hann getur verið með okkur í jólaundirbúningnum.

Á aðfangadag erum við heima hjá okkur með börnunum okkar og foreldrum og geri ég ráð fyrir að það verði eins í ár. Það er alltaf mikið um fjölmenn jólaboð í stórfjölskyldunni yfir hátíðarnar en á því gæti nú orðið breyting vegna aðstæðna í samfélaginu. Vonandi getum við samt hist eitthvað og notið þess að vera saman þótt það verði með öðru sniði en venjulega.“

Mælir þú með að fólk föndri og geri eitthvað skemmtilegt með fjölskyldunni fyrir jólin?

„Auðvitað mæli ég með því að fólk geri skemmtilega hluti með fjölskyldunni fyrir jólin. Það er þó svo misjafnt hvað fólki finnst skemmtilegt og það má ekki verða stressvaldur að finnast maður þurfa að gera eitthvað. Því er mikilvægt að ætla sér ekki um of og velja hluti sem fólk hefur gaman af. Ég er sjálf mikið fyrir handverk og finnst gaman að búa hluti til og börnunum mínum líka. Við reynum oftast að finna eitthvað sem okkur langar að prófa sem er fallegt en þó ekki of flókið. Í fyrra voru það músarstigar og jólatrésskraut úr postulíni. Á hverju ári bökum við líka piparkökur og skreytum saman. Það þykir okkur öllum mjög skemmtilegt og er hægt að einfalda allan undirbúning og vesen með keyptu piparkökudeigi og glassúr ef tíminn er naumur enda er útskurðurinn og skreytingarnar skemmtilegasti parturinn.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda