Sumarhús við Þingvallavatn sem arkitektarnir Kristján Eggertsson og Kristján Örn Kjartansson hjá arkitektastofunni KRADS hönnuðu prýðir forsíðu fyrsta tölublaðs Bo Bedre árið 2021. Arkitektarnir hönnuðu húsið fyrir tónlistarhjónin Tinu Dickow og Helga Hrafn Jónsson og lögðu mikla áherslu á að aðlaga húsið sem best landslaginu.
Timburhúsið stendur í þétt gróinni brekku sem hallar niður í norðurátt að Þingvallavatni. Kristján Eggertsson arkitekt segir ánægjulegt að sjá húsið í tímaritinu en þrátt fyrir að vera tiltölulega nýtt hefur það vakið töluverða athygli í erlendum fjölmiðlum.
„Það er virkilega skemmtilegt og ákveðin viðurkenning að fá svona athygli. Byggingin hafði áður birst í þýsku og dönsku sjónvarpi, eftir að tekin voru viðtöl við eigendur þess í húsinu á meðan það var enn í byggingu. Bo Bedre ákvað svo að gera stóra grein um húsið, Tinu og Helga en þau eru bæði þekkt tónlistarfólk í Danmörku og víðar. Við vissum hins vegar ekki fyrr en rétt áður en blaðið kom út að verkefnið myndi enda á forsíðunni. Marinó Thorlacius ljósmyndari, sem myndaði húsið, náði líka að fanga í forsíðumyndinni ákaflega fallega stemningu og grunnþemað í hönnun byggingarinnar, sem er hvernig húsið tengist landslaginu.“
Kristján Eggertsson segir að hönnunarferlið hafi verið algjört draumaverkefni.
„Sem listamenn sýndu Tina og Helgi einstakan skilning á öllu sköpunarferlinu og ólíkum þáttum þess. Þetta er líka í eina skiptið sem verkkaupi hefur mætt á fyrsta fund með heimagert pappamódel! Módelið var langt frá því að líkjast húsinu sem stendur í dag, en það útskýrði vel óskir og drauma þeirra og þannig góður grunnur fyrir okkur að hefja vinnuna á.
Þess utan var hönnunarferlið sérstakt að mörgu leyti enda er ekki á hverjum degi sem maður fær tækifæri til að hanna hús á svona fallegum stað, og fyrir góða vini sína. Allt ferlið einkenndist af innblásnum skoðanaskiptum og gagnkvæmu trausti. Við vorum líka það lánsamir að í ferlinu þurftum við aldrei að flýta okkur um of, öllum ákvörðunum var gefin sá tími sem þær þurftu til að lenda rétt. Allt frá því að velja nákvæma staðsetningu byggingarinnar í hlíðinni að því að velja, í samvinnu við Tinu og Helga, hvaða áklæði á innbyggðan sófa félli best að gróðrinum fyrir utan gluggana.“
Nafnarnir og stofnendur KRADS þeir Kristján Eggertsson og Kristján Örn Kjartansson lærðu arkitektúr í Danmörku og reka bæði stofu á Íslandi og í Kaupmannahöfn. Það fer vel saman að reka stofur í löndunum tveimur:
„Við erum búnir að vera með stofuna bæði í Danmörku og á Íslandi í 14 ár og það hefur á margan hátt reynst okkur vel. Við sækjum oft innblástur í norrænar byggingarhefðir og það víkkar sjóndeildarhring okkar að vinna bæði á Íslandi og á meginlandinu. Eins hafa verkefnin verið bæði spennandi og fjölbreytt. Nýlegt verkefni í Danmörku var til dæmis að breyta stórum steyptum vatnstanki í almenningsgarð og í samvinnu við danska landslagsarkitekta tókum við í sumar þátt í samkeppni um hönnun á útsýnispalli á Súgandisey, í Stykkishólmi. Í vinnunni við sumarhús Tinu og Helga fór þetta sérstaklega vel saman, enda eru þau líka með annan fótinn í Danmörku og mikið af þeim efnivið sem notaður er í húsinu, en ekki var hægt að fá á Íslandi, kemur einmitt frá Danmörku.“
Virðing fyrir náttúrunni og landslaginu er meginþema í hönnun hússins. Hér lýsa arkitektarnir hönnun sinni og hugmyndafræðinni á bak við húsið.
„Byggingin er mótuð af umhverfi sínu á marga vegu. Timburhúsið er reist á þremur steinsteyptum gólfplötum sem liggja í mismunandi hæðum og fylgja landhalla lóðarinnar. Torflagðir þakfletir halla í tvær áttir, með og á móti halla landsins, og renna saman við brekkuna til suðurs. Staðsetning byggingarinnar var vandlega valin til að fella hana sem best að umhverfi sínu, raska sem minnst þéttvöxnum trjágróðri og ramma inn ákveðin sjónarhorn að landslagi. Norðurhlið byggingarinnar lyftir sér varlega yfir landið og lágvaxnari trjágróður brekkunnar til að ramma inn útsýni úr alrými yfir Þingvallavatn, í átt að Skjaldbreiði. Opnun úr alrými út á skjólgóða suðvestur verönd rammar inn Jórukleif og Hátind í suðvestri um leið og hún opnar fyrir útsýni frá palli að Þingvallavatni, í gegnum bygginguna. Gluggar á vesturhlið, við sófahorn hjá barnaherbergjum annars vegar og við stofuborð alrýmis hins vegar, ramma inn Litla-Sandfell.
Burtséð frá veröndinni er næsta umhverfi byggingarinnar svo þétt gróið að það er nánast ekki manngengt. Að varðveita landið og gróðurinn var ein af megináherslunum í hönnun byggingarinnar. Grasi vaxnir þakfletir byggingarinnar eru hins vegar hugsaðir sem útisvæði, aðgengilegt frá svefn- og leiklofti og frá suðurhlið byggingarinnar þar sem þakflötur bátaskýlis rennur saman við hlíðina. Frá þakflötum fæst panóramískt útsýni yfir Þingvallavatn og að fjallahringnum sem umlykur Þingvallasveitina.“
Frekari upplýsingar um bygginguna og stofuna má finna á heimasíðu KRADS.