Gríma Björg hannaði fantaflott eldhús fyrir Jónu

Marmaraklædda eyjan er einstök og fer vel við fronta innréttingarinnar.
Marmaraklædda eyjan er einstök og fer vel við fronta innréttingarinnar. mbl.is/Árni Sæberg

Jóna Vestfjörð fékk Grímu Björgu Thorarensen innanhússhönnuð til að hanna fyrir sig nýtt eldhús og sitthvað fleira í raðhúsi hinnar fyrrnefndu í Garðabæ. Fyrir valinu var að nota grunn úr IKEA og láta sérsmíða hurðar á innréttinguna. Eins og sést tókst þetta verkefni afar vel. Lesendur Smartlands þekkja Jónu en hún var gestur Heimilislífs fyrir um það bil tveimur árum. 

Gríma og Jóna eru vinkonur og þekkjast vel. Þær lásu því hvor aðra eins og opna bók og voru sammála um hvernig heimilið ætti að líta út.

„Við þekkjum hvor aðra svo vel enda búnar að vera bestu vinkonur í mörg ár og ég held að hún hafi treyst mér ágætlega fyrir þessu og vorum við fljótar að komast að lokaniðurstöðu. Hún vildi opna eldhúsið og fá stóra eldhúseyju, svo tók hún sérstaklega fram við mig að hún vildi alls ekki svart/hvítt eldhús,“ segir Gríma en byrjað var á því að rífa út eldhúsinnréttingu, gólfefni og flísar ásamt því að brjóta niður tvo veggi til þess að opna rýmið á milli hæða betur en húsið er á þremur pöllum.

Vaskurinn er innfelldur í steininn og kemur vel út að …
Vaskurinn er innfelldur í steininn og kemur vel út að láta steininn ná upp á miðjan vegg. Brasslituðu blöndunartækin setja punktinn yfir i-ið. mbl.is/Árni Sæberg
Marmarinn er með gylltum tónum.
Marmarinn er með gylltum tónum. mbl.is/Árni Sæberg

„Við settum nýjar flísar á forstofu og sjónvarpshol og parket á stiga, stofu og eldhús. Ég teiknaði upp nýtt eldhús og breytti skipulagi þess þannig að það tengdist borðstofu og stofu mun betur. Eldhúsið er í grunninn sett saman úr IKEA-einingum en við létum sérsmíða fronta og völdum þennan fallega marmara í borðplötur og „backsplash“, svo völdum við gyllt blöndunartæki sem fara einstaklega vel með marmaranum,“ segir Gríma.

Í innréttingunni er reykt eik og marmarinn sem prýðir eldhúsið heitir Calacatta Macchia Vecchia og er frá Granítsteinum. Innréttingin sjálf er með höldum sem eru fræstar í hana en á tækjaskápnum eru höldur frá Innvali.

Hverju vildir þú ná fram með eldhúsinu?

„Ég vildi opna eldhúsið og tengja það við borðstofu og stofu. Einnig vildi ég ná fram góðu vinnu- og geymsluplássi en þegar eldhúsið er orðið hluti af stofunni er mikilvægt að vera með góðan tækjaskáp og hirslur til þess að halda skipulaginu góðu og fela mestu óreiðuna. Einnig var að sjálfsögðu mikilvægt að vanda efnisval vel og skapa fallega heild.“

Hér sést hvernig eldhús og borðstofa tengjast.
Hér sést hvernig eldhús og borðstofa tengjast. mbl.is/Árni Sæberg
Úr borðstofunni er útsýni yfir til Reykjavíkur.
Úr borðstofunni er útsýni yfir til Reykjavíkur. mbl.is/Árni Sæberg

Hvaða efni er á gólfunum?

„Flísarnar í forstofu og sjónvarpsholi eru frá Birgisson og heita Amani Bronze, í eldhús og stofu notuðum við sama parketið og var fyrir og nýbúið að leggja á neðstu hæð hússins en það er einnig frá Birgisson.“

Forstofan tók töluverðum breytingum en Gríma lét fjarlægja stóran fataskáp í forstofunni til að létta á rýminu. Hún segir að það hafi ekki þurft fataskáp því í forstofunni sé hurð inn í geymslu þar sem hægt er að geyma útiföt og slíkt.

„Þar rifum við út stóran fataskáp þar sem í forstofunni er góð geymsla sem nýtt er undir útiföt, skó og allt sem því fylgir og settum upp fljótandi bekk úr reyktri eik og reyktan spegil þar á bak við í opið þar sem fataskápurinn var. Þessar breytingar gerðu mikið fyrir rýmið, bæði stækkuðu það og lofthæðin fékk að njóta sín mun betur.“

Í vinnu þinni sem innanhússhönnuður, finnst þér fólk vilja mikið það sama eða er fólk til í að taka áhættu?

„Heilt yfir er gaman að sjá hvað Íslendingar fylgjast vel með nýjustu straumum og stefnum í hönnun en á sama tíma virðumst við vita hvað við viljum og erum í heild heldur klassísk í lita- og húsgagnavali.“

Sófinn er úr Seimei en Jóna rekur þá verslun ásamt …
Sófinn er úr Seimei en Jóna rekur þá verslun ásamt móður sinni. mbl.is/Árni Sæberg

Hvað ertu ánægðust með á heimilinu?

„Eldhúsið kom virkilega vel út og erum við báðar mjög ánægðar með útkomuna.“

Finnst þér áherslur fólks vera að breytast eftir að veiran fór að gera vart við sig og fólk ver meiri tíma inni á heimilinu?

„Mín tilfinning er sú að fólk hafi verið í miklum framkvæmdahug allt þetta ár og eru margir að taka heimilið hjá sér í gegn, þá sérstaklega eldhús og baðherbergi, eitthvað sem hefur setið á hakanum en nú þegar við ferðumst minna gefst loks tækifæri til þess að ráðast í verkið.“

Eggið eftir Arne Jacobsen passar vel við önnur húsgögn heimilisins.
Eggið eftir Arne Jacobsen passar vel við önnur húsgögn heimilisins. mbl.is/Árni Sæberg

Ertu með eitthvert gott ráð fyrir þá sem vilja fá fallegra yfirbragð á heimilið?

„Góð, mjúk og stillanleg lýsing finnst mér stór partur af fallegu heimili. Lýsing skapar stemningu, jafnvægi og hlýju. Plöntur eru skemmtileg og ódýr leið til þess að hressa heimilið við. Það er ýmislegt hægt að gera og fer allt eftir því hversu róttækur maður er tilbúinn að vera. Allt frá því að endurraða, færa til og breyta skipulagi þess sem fyrir er yfir í að mála rými í nýjum lit, lakka/sprauta hurðir og innréttingar, leika sér með gólf-, vegg- og loftalista, svo gera speglar ótrúlega mikið fyrir nánast öll rými og mér finnst alltaf gaman þegar þeir eru notaðir á frumlegum stöðum. Svo getur breytt gífurlega miklu að skipta út gardínum, blöndunartækjum í eldhúsi og jafnvel borðplötu, en þá er maður vissulega kominn út í örlítið stærri framkvæmdir.“

Grár spegill setur svip sinn á forstofuna. Gríma Björg hannaði …
Grár spegill setur svip sinn á forstofuna. Gríma Björg hannaði þetta skot og lét fataskáp víkja fyrir þessari fegurð. mbl.is/Árni Sæberg
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál