Poppstjarna Íslands, Bubbi Morthens, og eiginkona hans, Hrafnhildur Hafsteinsdóttir viðskiptafræðingur, hafa fest kaup á fallegu einbýlishúsi á Seltjarnarnesi. Húsið er 293 fm að stærð og var byggt 1986. Fasteignamat hússins er um 111 milljónir og keyptu hjónin húsið í skúffunni eins og sagt er. Það þýðir að húsið fór ekki í almenna sölu og var ekki auglýst til sölu.
Hjónin hafa búið í Kjós í meira en áratug í dásamlegu húsi sem þau seldu á dögunum eins og Smartland greindi frá.
Það má kannski segja að hjónin séu komin aftur „heim“ þar sem Bubbi bjó á Nesinu þegar hann bjó með fyrri eiginkonu sinni. Auk þess búa foreldrar Hrafnhildar á Nesinu og því stutt að fara í heimsókn til þeirra.
Tilvonandi nágrannar Bubba og Hrafnhildar eru auk þess af dýrustu sort, Jón Jónsson tónlistarmaður og Hafdís Jónsdóttir tannlæknir og Hörður Felix Harðarson lögmaður svo einhverjir séu nefndir.