Jón Ívar Einarsson prófessor við læknadeild Harvard-háskóla hefur sett glæsiíbúð sína á sölu. Um er að ræða penthouse-íbúð við Löngulínu í Garðabæ. Útsýnið úr íbúðinni er gott en þar er hátt til lofts og vítt til veggja.
Það sem gerir þessa íbúð sérstaka er að Rut Káradóttir, einn færasti innanhússarkitekt landsins, hannaði hana. Mikið er lagt í innréttingar og eru smekklegheitin allsráðandi. Það er ekkert í íbúðinni sem stingur í stúf eða er ekki við hæfi.
Íbúðin er 152 fm að stærð en húsið sjálft var byggt 2008. Eins og sést á myndunum er hátt til lofts og vítt til veggja.
Í eldhúsinu er sprautulökkuð hvít innrétting þar sem stór eyja er í aðalhlutverki. Til hliðar er skápaveggur með ísskáp og bakarofnum. Á eyjunni er hnausþykkur náttúrusteinn en í eyjunni er eldavél og vaskur.
Eins og sjá má á myndunum væsir ekkert um Jón Ívar þegar hann dvelur á Íslandi en hann hefur verið með annan fótinn og stundum báða í Bandaríkjunum síðustu ár.