Elísabet Gunnarsdóttir, bloggari á Trendnet.is, og handboltamaðurinn Gunnar Steinn Jónsson hafa fest kaup á dásamlega fallegu einbýli í Skerjafirði. Húsið er 207 fermetrar að stærð, byggt árið 1932.
Elísabet og Gunnar fluttu heim til Íslands í sumar eftir áralanga búsetu erlendis. Þau hafa verið búsett í Esbjerg í Danmörku undanfarin ár en Gunnar lék í vor með þýska 1. deildarliðinu Göppingen. Hann gerði samning við Stjörnuna og því er fjölskyldan að flytja heim.
Elísabet hefur sýnt frá framkvæmdum við húsið á Instagram í vikunni og virðast þau hjónin ætla að hressa upp á það. Húsið er á tveimur hæðum og með kjallara. Það var lengi á sölu en er nú komið í hendurnar á fólki sem veit hvað það syngur þegar kemur að því að búa sér fallegt heimili.
Hjónin, sem fögnuðu þriggja ára brúðkaupsafmæli í sumar, áttu lengi vel eign hér á Íslandi. Hana seldu þau í byrjun síðasta árs en á því heimili skein skandínavískur stíll Elísabetar algjörlega í gegn.