Svalir eru draumur margra þeirra sem búa í fjölbýlishúsum. Ef þú átt litlar svalir sem þú nennir aldrei að nota ættirðu að prófa að gera þær aðeins meira kósí og vittu til, þú munt nota þær mun oftar.
Nú þegar styttist í annan endann á sumrinu eru líka húsgögn og búnaður til að gera svalirnar kósí á góðum afslætti svo þú getur sparað helling á að gera það núna en ekki næsta sumar.
Hér eru nokkrar hugmyndir um hvernig þú getur gert litlu svalirnar þínar enn meira kósí.
Lítið borð og stóll
Það er lykilatriði að geta sest niður og lagt eitthvað frá sér á svölum. Hægt er að finna stök borð og stóla í byggingarvöruverslunum og Ikea er einnig með mjög góða kosti. Ef plássið er virkilega af skornum skammti er þetta felliborð frá Ikea hin fullkomna lausn.
Pallaefni á gólfið
Gallinn við svalir sem ekki eru yfirbyggðar er að gólfið á þeim vill verða svolítið leiðinlegt. Í helstu byggingarvöruverslunum má finna efni til að leggja yfir svalirnar. Það færir þær algjörlega upp á næsta stig.
Sería
Útiseríur eru ekki bara fyrir jólin, það vitum við Íslendingar. Það er fátt meira kósí en að sitja úti á svölum eftir myrkur, vel klæddur og njóta augnabliksins. Stórar útiseríur fást meðal annars í Bauhaus og Rúmfatalagernum
Púðar
Til að hámarka þægindin ættirðu að finna púða og jafnvel teppi sem má fara með út á svalir. Þú þarft ekkert endilega að kaupa nýja púða eða teppi.
Kertalukt
Ef plássið býður upp á það er fullkomið að kaupa stóra kertalukt sem má standa úti.