Skúli Mogensen selur 30 lóðir í Hvammsvík

Skúli Mogensen og Gríma Björg Thorarensen.
Skúli Mogensen og Gríma Björg Thorarensen. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skúli Mogensen athafnamaður og fyrrverandi forstjóri WOW air hefur sett lóðir í Hvammsvík á sölu. Hann heillaðist af svæðinu á sínum tíma og finnur hvergi þann frið þar sem þarna ríkir. Hann og unnusta hans, Gríma Björg Thorarensen innanhússarkitekt, hafa búið í Hvammsvík um nokkur skeið og elska að vera þar. 

„Það sem heillaði mig strax við Hvammsvíkina var stórbrotin náttúran og kyrrðin.  Hvalfjörðurinn „gleymdist“ svolítið eftir að göngin komu en er algjör perla og útivistarparadís aðeins 45mín frá Reykjavik,“ segir Skúli. 

Þegar ég spyr Skúla hvernig sé að búa í þessari fjarlægð frá miðbæ Reyjavíkur segir hann að það sé einstakt. 

„Við höfum verið þarna mjög mikið undanfarin ár allt árið í kring og allir árstímar hafa sinn sjarma. Norðurljósin í Hvalfirðinum geta verið magnaðir og fátt betra en að vera í náttúrulauginni og fylgjast með flæða yfir svæðið. Það er ekkert tiltökumál að skjótast í bæinn og við sjáum fyrir okkur að búa þarna meir eða minna yfir sumartímann,“ segir hann.

Síðan Skúli festi kaup á Hvammsvík hefur mikil uppbygging farið fram. Þegar ég spyr hann hver stefnan sé með svæðið segir hann að draumurinn sé að halda áfram á sömu braut og þau hafa verið á síðustu ár. 

„Draumurinn er að halda áfram á þeirri braut sem við höfum verið að gera og byggja þarna upp fyrsta flokks gistingu og ýmsa þjónustu og afþreyingu henni tengt í sátt og samlyndi við allt umhverfið í kring, bæði náttúru og dýralíf. Sjóböðin eru að taka á sig mynd og erum við mjög spennt að opna þau. Núna erum við að setja þessar lóðir í sölu og höfum fengið mjög góð viðbrögð við þeim. Næsta skref er síðan að bæta nokkrum húsum við hjá okkur sem verður hluti af okkar „boutique“ gistingu. Hluti af því er þá að auka þjónustuna með veitingastað og fleiri afþreyingu sem verður þá aðgengileg fyrir bæði okkar gesti og þá sem eiga frístundarhús á svæðinu,“ segir Skúli. 

Lóðirnar sem Skúli er að selja núna eru 30 talsins og allt eignarlóðir sem eru vestast á jörðinni eða um 3-4 kílómetrum frá húsunum sem fyrir eru.

„Við erum að þróa lúxus gistingu þannig það truflar ekki hvort annað á nokkurn hátt. Þvert á móti þá held ég að þetta muni styrkja hvort annað og við vonumst svo sannarlega að sumarhúsa eigendurnir muni vilja koma á veitingastaðinn, veiða silung í vatninu, fara á kajaka og sjóböðin þegar fram líða stundir en jafnframt eru þetta stórar lóðir þar sem allir geta notið þess að vera í friði ef þau kjósa það,“ segir hann. 

Skúli segir að það sé mikill kostur hvað Hvammsvík er nálægt Reykjavík.

„Við höfum bæði unnið í bænum þó að við höfum búið í sveitinni í vetur og lítið mál að skjótast á milli. Sama gildir ef fólk vill kíkja í heimsókn og fyrir vikið verður maður miklu duglegri að skjótast þó að það sé jafnvel bara í eina nótt.“

Nú þegar er búið að taka frá átta lóðir á svæðinu. 

„Við buðum nokkrum vinum og vandamönnum í heimsókn sem þekkja til svæðisins. Nú þegar er búið að taka frá átta lóðir sem er frábært því auðvitað skiptir það okkur máli að fá gott fólk á svæðið sem við vitum að muni halda uppbyggingunni áfram í sátt og samlyndi við umhverfið. Við leggjum áherslu á að halda í núverandi stíl sem búið er að þróa og skapa þannig heildstæða mynd. Sumir hafa þegar tryggt sér fleiri en eina lóð og það verður gaman að sjá þetta fæðast og þróast,“ segir Skúli. Hægt er að skoða lóðirnar á Hvammsvík.is 

Af fasteignavef mbl.is: Hvammsvík 7

Hvammsvík er undraverður staður í utanverðum Hvalfirði.
Hvammsvík er undraverður staður í utanverðum Hvalfirði. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda