Kristrún Frostadóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík suður, er hagfræðingur að mennt sem hefur unnið við efnahagsgreiningar undanfarin ár í Bandaríkjunum og London. Hún fékk nóg af því að flytja á milli leiguíbúða þegar hún bjó erlendis á sínum tíma.
„Það er við eldhúsborðið heima með kaffibolla, sérstaklega um helgar.“
Áttu þér uppáhaldshúsgagn?
„Við eigum lítinn hægindastól sem við keyptum þegar við bjuggum í London og vorum með pínulitla stofu. Þar var mjög lítið pláss og umfang stólsins í samræmi við það. Í dag er stóllinn inni í herbergi dóttur minnar og nýtist í kvöldlesturinn fyrir hana.“
Hvers virði er að eiga sína eign sjálfur?
„Aðalmálið er húsnæðisöryggi og viðráðanlegur húsnæðiskostnaður. Á Íslandi er mjög erfiður leigumarkaður, þar sem erfitt hefur verið fyrir fólk að treysta á langtímaleigu á hóflegu verði. Því er ekki skrítið að mjög margir vilji eiga sína eigin eign. En það þarf ekki að vera þannig. Víða, sem dæmi í Þýskalandi, er um helmingur af markaðnum leiguhúsnæði. Þar skiptir mestu máli öryggið og heilbrigður rammi í kringum markaðinn.“
Ættu allir Íslendingar að geta keypt sér íbúð?
„Allir Íslendingar ættu að geta treyst á öruggt húsnæði á viðráðanlegu verði. Það eru mannréttindi að hafa þak yfir höfuð sér, og það getur verið í formi leigu eða eignar. Það er mjög mikilvægt að stutt sé betur við uppbyggingu leigumarkaðs sem býður upp á hóflega leigu og öryggi. Það getur hentað fólki á mismunandi tímum í lífinu, sumir myndu alltaf vilja leigja, en fyrir ungt fólk er það líka lykilatriði að geta verið í leiguhúsnæði á fyrstu árunum sínum sem gerir því kleift að spara meira fyrir innborgun í eign.“
Hvernig lýsir þú þínum persónulega stíl?
„Við erum með talsvert af einfaldri skandinavískri hönnun heima, en höfum frekar lagt upp með að vera með áhrifarík listaverk, nær allt ungt fólk sem hefur verið að stíga sín fyrstu skref á listasviðinu. Bæði eru þetta áhugaverðari verk að mínu mati, en eins finnst mér mikilvægt að styðja við unga og núlifandi listamenn.“
Býrðu í draumahúsinu þínu?
„Já, vonandi þarf ég aldrei að flytja aftur. Við fluttum mjög oft milli leiguíbúða þegar við bjuggum erlendis. Við fluttum í parhús í fyrra, þar sem fyrri eigendur höfðu haldið upphaflegri hönnun mjög vel við. Húsið er byggt árið 1967 og er mjög hlýlegt. Þar er stór stofa og stórt alrými en lítil herbergi sem er nákvæmlega það sem hentar okkur. Við fjölskyldan erum svo lítið í herbergjunum okkar.“
Hver er uppáhaldslistamálarinn þinn?
„Jóhanna Kristbjörg Sigurðardóttir er einstaklega hæfileikaríkur listamaður að mínu mati.“
Hvaða snjallforrit notar þú mest?
„Það er dagatalið mitt. Áður en ég fór í kosningabaráttu var ég aldrei á samfélagsmiðlum og lagði alltaf frá mér símann eftir níu á kvöldin. Þetta hefur breyst tímabundið viðurkenni ég.“
Hvort ertu meira fyrir bað eða sturtu?
„Ég fer alltaf í sturtu, en er mjög ánægð að við erum með baðkarið á meðan dóttir okkar er lítil. Það er notað á hverju kvöldi.“
Ef þú réðir öllu í landinu, hverju myndirðu breyta þegar kemur að heimilum Íslendinga?
„Ég myndi vilja fjölga litríkum húsum á landinu – og panelleggja fleiri loft og veggi.“
Hver er tilgangur lífsins?
„Samverustundir með fjölskyldu.“
Hver er uppáhaldsliturinn þinn á veggjum á heimilinu?
„Við erum bara með hvíta málaða veggi heima. Það er líka viðarpanell í loftinu hjá okkur og á þó nokkrum veggjum í stofunum sem þýðir að það er ekki mikið pláss fyrir litagleði. Síðan er nóg af litum í listaverkunum.“
Hvernig dekrar þú við þig heima?
„Með því að hangsa um helgar. Bestu helgarnar eru þær sem eru algjörlega óskipulagðar, morgunmaturinn tekinn á þremur klukkutímum, göngutúr og afslöppun með fjölskyldunni.“
Hver er uppáhaldshönnuðurinn þinn?
„Ég er mjög hrifin af danskri húsgagnahönnun. Finn Juhl hannaði ótrúlega falleg húsgögn á sínum tíma, einföld og tímalaus. Ótrúlegt handverk og húsgögn sem eiga að ganga á milli kynslóða enda rándýr – líftíminn skiptir þó máli.“
Hvort er betra að elda eða ganga frá?
„Elda, það er klárt mál.“
Hvers hlakkar þú til?
„Ég er bara full tilhlökkunar að fá að taka þátt í samfélagsþjónustu í auknum mæli í gegnum þingstörf! Það hefur verið ótrúlega gefandi að stíga inn á hið pólitíska svið á síðustu mánuðum. Ég ætla þó að gera mitt allra besta að raska heimilislífinu mínu ekki um of. Fjölskyldan mín er í fyrsta sæti – ég vinn í kringum þau. Ég er mjög meðvituð um það núna þegar ég breyti um gír.“