Leikstjórinn Baltasar Kormákur setti einbýlishús sitt við Smáragötu á sölu á dögunum. Nú er húsið selt. Parið Hannah Hjördís McVeety og Brian Jeffrey Gross festi kaup á húsinu. Húsið er einstaklega glæsilegt og hefur mikið verið nostrað við það.
Handbragð kærustuparsins, Sunnevu Ásu Weisshappel og Baltasars, sést víða eins og til dæmis á eldhúsinu þar sem eldhúsinnréttingin er sett saman úr ólíkum skápum. Fyrir ofan eyjuna er standur fyrir potta og pönnur sem setur svip sinn á eldhúsið. Sunneva Ása er myndlistarkona og hefur líka starfað sem leikmyndahönnuður. Baltasar og Sunneva Ása vinna mikið saman en allar innréttingar í húsinu eru sérsmíðaðar og lögðu þau mikinn metnað í að gera húsið sem skemmtilegast.
Húsið var byggt 1931 og er 375 fermetrar að stærð. Það ætti því ekki að fara illa um nýja eigendur. Fasteignamat hússins er 152.500.000 krónur en verður 167.300.000 krónur á næsta ári.