Félag hjónanna Kesöru Margrétar Jónsson og Friðriks Ragnars Jónssonar, K&F ehf., greiddi 480 milljónir fyrir lúxusíbúð við Austurhöfn. Um er að ræða fokhelda þakíbúð sem er 337 fermetrar að stærð. Vb.is greindi fyrst frá kaupverðinu.
Fermetraverð íbúðarinnar er rúmlega 1,4 milljónir króna. Íbúðin var auglýst til sölu án innréttinga og er gert ráð fyrir að hjónin Kesara Margrét, prófessor í grasa- og plöntuerfðafræði, og Friðrik Ragnar, verkfræðingur og forstjóri, eigi eftir að greiða dágóða summu til viðbótar fyrir innréttingar á íbúðinni sem er sú næststærsta af lúxusíbúðunum við Austurhöfn.
Kesara Margrét er einnig skráð fyrir glæsilegu einbýlishúsi á Öldugötu 16 sem er á sölu. Það vakti athygli í byrjun mánaðarins þegar ViðskiptaMogginn greindi frá því að fasteignasalan Sotheby's International Realty í Svíþjóð væri með húsið á sölu á alþjóðlegum markaði. Ásett verð á Öldugötu 16 er 4,2 milljónir dollara, um 550 milljónir króna.